Allar klær úti við leitina

Björgunarsveitarmenn og lögregla ásamt fangaverði við girðinguna þar sem Matthías …
Björgunarsveitarmenn og lögregla ásamt fangaverði við girðinguna þar sem Matthías er talinn hafa sloppið út, en húfan hans fannst þar í gær. mbl.is/Júlíus

Leitin heldur áfram að Matthíasi Mána Erlingssyni, sem strauk frá Litla-Hrauni fyrir þremur sólarhringum, en hefur ekki borið árangur. Að sögn lögreglu er verið að púsla saman þeim upplýsingum og vísbendingum sem fyrir liggja. Nokkrir björgunarsveitarmenn hjálpa til við leitina í dag en þó ekki eins fjölmennt lið og í gær. 

„Hann er ófundinn en það er ennþá verið að púsla saman þeim upplýsingum sem fyrir liggja,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem stýrir leitinni. Aðspurður hvort fleiri vísbendingar hafi borist segir Arnar að alltaf berist ein og ein ábending og þær séu allar kannaðar.

Í gær leitaði fjölmennt lið lögreglu, sérsveitarmanna og björgunarsveita í nokkurra kílómetra radíus út frá Litla-Hrauni og var m.a. fjaran kembd við Eyrarbakka og skoðað í útihús og skúra á svæðinu. Arnar segir að svipaður háttur sé hafður á núna. Nokkrir björgunarsveitarmenn aðstoði lögregluna á Selfossi við leit á svæðinu þar en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þó yfirumsjón með leitinni.

En hefur leitarsvæðið verið stækkað?

„Þetta var nú bara ákveðið svæði sem við vildum kanna sérstaklega þannig að við værum ekki að leita langt yfir skammt, en svo eru ýmsar vísbendingar sem við höfum fengið og við höfum allar klær úti.

Verður leitað fram í myrkur?

„Það verður leitað þangað til við erum búin að klára þetta svæði og ég vonast til að það náist fyrir myrkur.“

Matthías Máni Erlingsson er 24 ára, fæddur 15. október 1988. Hann er 171 cm á hæð, um 70 kg og grannvaxinn. Síðast þegar hann sást var hann klæddur grárri hettupeysu, með svarta prjónahúfu á höfði og í dökkum buxum.

Matthías Máni Erlingsson
Matthías Máni Erlingsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert