Ekkert spurst til Matthíasar

Hvorki tangur né tetur hefur sést af Matthíasi Mána síðan …
Hvorki tangur né tetur hefur sést af Matthíasi Mána síðan hann slapp af Litla-Hrauni á mánudag.

Lögreglan segir óvenjulegt að engar haldbærar vísbendingar hafi borist um ferðir strokufangans Matthíasar Mána Erlingssonar síðan hann slapp frá Litla-Hrauni fyrir tæpum fjórum sólarhringum. Ekki er heldur vitað til þess að hann hafi sett sig í samband við neinn, hvorki fjölskyldu né vini.

Óvenjulegt að engar vísbendingar berist

„Við höldum áfram leit í dag, erum að eltast við ábendingar sem við höfum fengið og reyna að þrengja hringinn. Við reynum að loka öllum endum,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem stýrir leitinni. Yfir 100 ábendingar hafi borist um hvert hann gæti hugsanlega hafa farið og eru þær allar kannaðar til hlítar. Óvenjulegt sé hins vegar að hvorki sjáist tangur né tetur af strokufanga svo lengi.

„Yfirleitt fáum við einhverjar haldbærar vísbendingar en það er ekkert sem er staðfest um ferðir hans nema það að hann sást með óyggjandi hætti við girðinguna á Litla-Hrauni þegar hann fór.“ M.a. hefur verið leitað í útihúsum og geymsluskúrum við Stokkseyri og Eyrarbakka. Ekkert hefur þó borið á því að fólk telji sig sjá ummerki um mannaferðir í húsum sínum.

Fór illa klæddur út í veturinn

Í gær fundust fótspor sem rakin voru og leitað að slóð með hjálp hunda. Það bar ekki árangur. Fjörurnar við Stokkseyri og Eyrarbakka hafa einnig verið kembdar með hjálp björgunarsveitarmanna sem höfðu bæði staðarþekkingu og sérkunnáttu í slíkum leitum. Lögreglan ein er hins vegar við leit í dag.

Aðspurður hvort talið sé að Matthías sé í hættu eða hafi unnið sjálfum sér skaða segir Arnar að lögreglan vilji vera viss um að yfirsjást ekkert. „Við vildum allavega vera vissir um að við værum ekki að leita langt yfir skammt þannig að við værum ekki búin að leita um allt höfuðborgarsvæðið áður en kæmi í ljós að hann væri bara þarna í túnfætinum. Eins af því að hann fer út í kulda illa klæddur. Ef eitthvað hefði komið fyrir hann væri frekar ömurlegt að vera ekki búinn að ganga úr skugga um það.“

Frost var framan af vikunni en nú hefur hlýnað. Í gær gekk á með slyddu og í dag er talsverður vindur og rigning á Suðvesturlandi. Óhætt er því að segja að aðstæður séu miður góðar til útigangs. „En það er þannig að það er ekki langt á milli húsa á þessu svæði. Hann er í góðu formi og ætti að geta bjargað sér þarna, nema eitthvað hafi komið fyrir hann,“ segir Arnar.

Matthías Máni Erlingsson er 24 ára, fæddur 15. október 1988. Hann er 171 cm á hæð, um 70 kg og grannvaxinn. Síðast þegar hann sást var hann klæddur grárri hettupeysu og í dökkum buxum.

Björgunarsveitarmenn og lögregla ásamt fangaverði við girðinguna þar sem Matthías …
Björgunarsveitarmenn og lögregla ásamt fangaverði við girðinguna þar sem Matthías er talinn hafa sloppið út. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert