Harpa verður opinbert hlutafélag

Öll félög um rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu hafa verið sameinuð í eitt sem ber nafnið Harpa og verður opinbert hlutafélag. Þetta telst stór áfangi í því ferli að gera rekstur hússins skilvirkari og markvissari.

Haldinn var hluthafafundur í Austurhöfn, yfirfélagi Hörpu, í gær sem jafnframt var fyrsti fundur eigendanefndar hússins, en það er sem kunnugt er í eigu ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%). Á fundinum var samþykkt eigendastefna fyrir Hörpu og jafnframt var ákveðið að hefja samruna Austurhafnar og Hörpu, að undanskildu lóðafélaginu Sítusi, sem verður sjálfstætt og mun heyra beint undir ríki og borg.

Þegar því samrunaferli lýkur í lok janúar hafa öll félögin um Hörpu verið sameinuð í eitt. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að allir fundarmenn hafi lýst mikilli ánægju með þennan áfanga og samþykktu jafnframt starfsreglur fyrir stjórn Hörpu, svo allir ferlar mættu vera sem skýrastir. 

Nýja stjórn Hörpu skipa Helga Jónsdóttir, formaður, Haraldur Flosi Tryggvason, varaformaður, Pétur Ásgeirsson, Helga Margrét Reykdal, Kjartan Örn Ólafsson, Þórunn Sigurðardóttir og Svanhildur Konráðsdóttir.

Forstjóri Hörpu er Halldór Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert