Konan sem Matthías Máni Erlingsson, sem strauk af Litla-Hrauni, var dæmdur fyrir að ráðast á hefur yfirgefið landið ásamt börnum sínum. Þetta staðfestir Arnar Marteinsson aðalvarðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Einnig að Matthías hafi hótað konunni og börnunum lífláti skömmu fyrir flóttann.
Arnar segir að Matthías Máni hafi haft samband við konuna fáeinum dögum áður en hann strauk úr fangelsinu á Litla-Hrauni og hótað henni og börnum hennar lífláti. Þegar svo strokið uppgötvaðist aðstoðaði lögregla hana við að komast í felur. Hún hafi síðan þá upplifað sig í nánast fangelsi, enda ekkert vitað um Matthías.
Spurður að því hvort lögregla hafi séð um að koma konunni og börnunum úr landi segir Arnar að svo sé ekki. Þetta hafi verið hennar eigin ákvörðun. En með henni sé jafnvel talið að forsendur Matthíasar Mána fyrir því að strjúka séu brostnar.
Þá segist Arnar vita til þess að ættingjum Matthíasar Mána líði afar illa yfir því að vita af honum einhvers staðar einum, jafnvel í vosbúð, yfir jólin. Þau hvetji hann því til þess að gefa sig fram.
Matthías var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Dómur var kveðinn upp 14. september síðastliðinn. Hann var í haldi lögreglu frá því árásin var framin, 1. apríl síðastliðinn.
Hann var sakfelldur fyrir að ráðast að fyrrverandi stjúpmóður sinni sem hann sagðist sjálfur hafa átt í ástarsambandi við. Hún hafnaði því fyrir dóminum að um ástarsamband hafi verið að ræða og sagði að „þetta hafi allt verið ljótt“. Matthías viðurkenndi fyrir dómi árásina. Þegar að honum var komið á vettvangi sat Matthías klofvega yfir konunni og kyrkti með báðum höndum.
Matthías samþykkti bótakröfu í málinu sem talin var hæfileg 1,5 milljónir króna.