Rætist kuldaspá fyrir landið í næstu viku koma dægurmet til með að falla, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings. Það er ekki síst sérstakt þar sem dægurhitamet voru sett á nokkrum stöðvum sem mælt hafa lengi á fimmtudag, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli.
Á vefsvæði sínu segir Trausti að sé að marka spár verði aðdragandi kuldans frekar rólegur en hann herði tökin sígandi.
Trausti fer yfir nokkur veðurkort þar sem sjá má kaldasta loftið teygja sig í átt til Íslands. „Þetta virðist heldur ískyggilegt, en munum þó að lítill hafís er á leiðinni til Íslands og ekki er heldur spáð miklum vindi - við getum því vonað það besta,“ segir Trausti.
Þá má nefna að á vefsvæði Veðurstofu Íslands má sjá að á miðvikudag er spáð 19 stiga frosti á Egilsstaðaflugvelli, 13 stiga frosti á Akureyri og 7 stiga frosti í Reykjavík. Á miðnætti sama dag er svo spáð 28 stiga frosti á Egilsstaðaflugvelli, 14 stiga frosti á Akureyri og 11 stiga frosti í Reykjavík.
Á miðnætti daginn eftir er spáð allt að 30 stiga frosti á Egilsstaðarflugvelli, 15 stiga frosti á Akureyri og 11 stiga frosti í Reykjavík.
Hafa ber í huga að um langtímaspár er að ræða sem geta hæglega breyst.