Aðstandendur Matthíasar fegnir

Matthías Máni Erlingsson.
Matthías Máni Erlingsson.

Lögreglan ræddi við aðstandendur Matthíasar Mána Erlingssonar í morgun og voru þeir mjög fegnir því að hann væri kominn fram, heill á húfi. Ekki er vitað hvernig Matthías varð sér úti um vopnin, en talið er að annað hvort hafi hann haft vitorðsmann eða að hann hafi stolið þeim úr sumarhúsi eða hesthúsi.

Kristján Helgi Þráinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að bóndinn á Ásólfsstöðum virðist hafa brugðist rétt við hinni óvæntu heimsókn í morgun, en að alltaf sé hætta til staðar þegar menn séu vopnaðir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er hugsanlegt að Matthías hafi notið utanaðkomandi aðstoðar við flóttann. Mögulegt sé að Matthías Máni hafi annað hvort fengið vopnin frá vitorðsmanni, og þá sótt þau á fyrirfram ákveðinn stað, eða að hann hafi einfaldlega stolið þeim úr sumarhúsi eða hesthúsi. Mikil sumarhúsabyggð sé í nágrenninu.

Riffillinn var 22-kalíbera með hljóðdeyfi. Hljóðdeyfar eru ólöglegir á Íslandi, og því verður Matthías væntanlega ákærður fyrir ólöglegan vopnaburð. Málið sé í höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem muni taka ákvörðun um næstu skref. Lögreglan á Selfossi mun yfirheyra hann í dag.

Þegar á heildina er litið tóku tugir manna þátt í leitaraðgerðum að Matthíasi Mána. Í morgun hefði hins vegar bara þurft að senda einn til tvo bíla á vettvang til þess að sækja hann.

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í lögreglustöðinni við Hverfisgötu. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert