Fanginn gaf sig fram vopnaður byssu

Matthías Máni Erlingsson
Matthías Máni Erlingsson Svanur Elísson

Matthías Máni Erlingsson, fanginn sem strauk af Litla-Hrauni fyrir viku er kominn fram. Hann var með hlaðinn riffil með hljóðdeyfi, skot, hnífa og öxi í farteskinu, að sögn Arnar Rúnars Marteinssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem farið hefur með yfirumsjón leitarinnar að Matthíasi.

Matthías er nú aftur kominn á Litla-Hraun.

Matthías gaf sig fram. Hann lét vita af sér á bænum Ásólfsstöðum í Þjórsárdal um kl. 5 í  morgun. Bóndinn bauð honum inn í bæ, ræddi við hann og gaf honum heitt að drekka eftir að hafa látið lögregluna vita.

Lögreglan á Selfossi kom svo og sótti Matthías og ók honum rakleiðis á Litla-Hraun. Þangað var hann kominn kl. 6.31 í morgun, að sögn Arnars.

Matthías var vel búinn. Hann var í hlýjum fötum og með matvæli meðferðis. Þá var hann með hlaðinn riffil með hljóðdeyfi, skot, hnífa og öxi á sér.

Arnar segir enn eftir að rannsaka hvernig hann komst yfir þennan búnað. „En það  besta sem gat gerst var að hann gæfi sig fram með þessum hætti svo ekki þurfti að koma til stórrar lögregluaðgerðar,“ segir Arnar.

Sjá einnig viðtal við bóndann á Ásólfsstöðum: Gaf sig fram vegna móður sinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert