Gaf sig fram vegna mömmu sinnar

Matthías Máni Erlingsson.
Matthías Máni Erlingsson. Svanur Elísson

„Hann var alveg rólegur, sagðist ekki vera hættulegur og bað mig að hringja í lögregluna,“ segir Ragnheiður Björk Sigurðardóttir sem ásamt föður sínum Sigurði Páli Ásólfssyni vaknaði upp við það í morgun að strokufanginn Matthías Máni Erlingsson bankaði upp á á bæ þeirra, Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. „Hann var hér úti í garði og bankaði á húsið. Við ræddum heillengi við hann meðan hann var úti og gáfum honum heita súpu því það var kalt úti.“

Matthías gaf sig fram á bænum um kl. fimm í morgun. Hann var vel búinn og vopnaður hlöðnum riffli, skotum, hnífum og öxi, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.

Ragnheiður segist strax hafa séð að hann var með riffil. „Hann var ekki kaldur, enda vel búinn.“

Hún segir að sér hafi brugðið fyrst í stað er hún gerði sér grein fyrir hver væri þarna á ferð. „Hann sagði strax: Ég er Matthías.“

En að sögn Ragnheiðar var hann alls ekki ógnandi og eftir að hafa rætt við hann í um 20 mínútur í gegnum gluggann buðu þau honum inn í bæ á meðan beðið var eftir lögreglunni. Vopnin urðu eftir úti.

Ragnheiður segir að Matthías hafi ekki viljað ræða hvar hann hefði haldið til frá því að hann strauk. „En hann talaði um mömmu sína. Ég held að hann hafi gefið sig fram vegna mömmu sinnar.“

Matthías er nú kominn aftur á Litla-Hraun en hann strauk þaðan fyrir viku.

Frétt mbl.is: Fanginn gaf sig fram vopnaður riffli

Matthías Máni Erlingsson.
Matthías Máni Erlingsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert