Undirbúningur fyrir handaágræðslu hafinn

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. mbl.is

„Kæru vinir. Ég var að fá bestu jólagjöf allra tíma. Fékk í dag póst frá Frakklandi þar sem segir að Ítalinn sé búinn að fara í aðgerð og undirbúningur fyrir mína aðgerð sé hafinn,“ skrifar Guðmundur Felix Grétarsson á Facebook í kvöld, en hann bíður eftir því að komast í handaágræðslu í Lyon í Frakklandi.

Guðmundur skrifar einnig að stefnt sé að því að setja hann á biðlista innan þriggja mánaða.

Í viðtali í Morgunblaðinu 20. desember sagði Guðmundur Felix frá því að einn væri á undan honum að bíða eftir aðgerðinni. Ekkert myndi gerast hjá sér fyrr en að búið væri að græða hendur á hann.

Endurhæfingaráætlun vegna aðgerðarinnar mun vera langt komin, samkvæmt fréttum frá Frakklandi. Guðmundur er sá fyrsti sem báðir handleggir frá öxlum verða græddir á í Lyon. Öll aðgerðin mun líklega taka meira en sólarhring.

Guðmundur sagði í viðtalinu að biðin hefði tekið á. „Ég var svolítið í því bara að bíða, en það var erfitt að sitja og telja dagana. Nú reyni ég að sinna sólbaðsstofunni minni og daglegu lífi og halda áfram þangað til boðin koma. Ég hef verið að æfa og koma mér í betra form. Ég er sennilega í einhverju besta formi sem ég hef verið í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert