Matthías Máni Erlingsson verður í einangrun næstu tvær vikurnar. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að þegar menn almennt séð skila sér úr stroki séu þeir úrskurðaðir í einangrun í tvær vikur.
Páll segir að viðurlög við stroki séu tiltekin í lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005, en í 56.-58. grein þeirra laga er fjallað um agabrot. Þar eru þau atriði nefnd sem varða viðurlögum, þeirra á meðal eru strok, smygl, ofbeldi gagnvart öðrum föngum og gróf skemmdarverk. Lögin veita forstöðumanni fangelsis heimild til að beita fanga agaviðurlögum við þessum brotum, og þar á meðal er einangrunarvist í allt að 15 daga.
Á fréttamannafundi lögreglunnar í gær sagði Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að öryggismálum á Litla Hrauni væri ábótavant, og nefndi þar sem dæmi girðingu og myndavélarkerfi. Páll segir að hann taki undir þá gagnrýni Arnars og að fangelsismálayfirvöld hafi verið að benda á í skýrslum undanfarin ár að endurbóta væri þörf. „Við fengum fjármagn á þessu ári til þess að hefja þær endurbætur og höldum þeim áfram á næsta ári og vonandi á næsta ári þar á eftir.“ Það taki hins vegar tíma og fjármagn að endurnýja tæknibúnaðinn.