20 nemendur voru brautskráðir frá Lögregluskóla ríkisins þann 21. desember síðastliðinn. Nemendurnir hófu námið í ársbyrjun og konur eru 35% þeirra sem útskrifuðust.
Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Selfossi, og Gunnar Jarl Jónsson, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.
Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Sveinn Andri Brimar Þórðarson með meðaleinkunnina 8,93, í öðru sæti varð Helga Höskuldsdóttir með meðaleinkunnina 8,70 og í þriðja sæti Ragna Hjartardóttir með meðaleinkunnina 8,57. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,04.
Þórunn J. Hafstein afhenti Gunnari Jarli Jónssyni, Helgu Höskuldsdóttur, Jóhönnu Lindu Jóhannesdóttur og Tómasi Árna Ómarssyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra á sínum tíma, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.
Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda „Lögreglumann skólans“ og varð Stefnir Örn Sigmarsson fyrir valinu.