Fljúgandi diskar í Hafnarfirði

Fljúgandi diskar eru ekki á hverju strái en víst er að nóg verður af þeim í Hafnarfirði á næstu dögum því dagana 29.-30. desember fer fram fyrsta alþjóðlega svifdiskamótið á Íslandi. „Alls keppa 80 manns frá um 15 löndum á mótinu. Þar af eru flestir frá Þýskalandi en einnig eru keppendur frá Kanada, Sviss, Bretlandi, Austurríki, Svíþjóð, Danmörku og svo tekur einn Japani þátt,“ segir Hanna Þórðardóttir, umsjónarmaður mótsins.

„Mótið er öllum opið, en einstaklingar skrá sig til leiks og er síðar skipað í lið,“ segir Hanna. „Þessi mikla þátttaka kom skemmtilega á óvart, en ég átti alls ekki von á að svo margir tækju þátt,“ bætir hún við. 10 Íslendingar eru á meðal þátttakenda.

Þátttakendur í mótinu eru á öllum aldri. „Yngstu keppendurnir eru 17 ára, og sá elsti 51 árs,“ segir Hanna og bætir við að nauðsynlegt sé að vera í góðu líkamlegu formi til að taka þátt í mótinu, þótt reyndari leikmenn geti komið sér hjá mestu átökunum með kænsku.

Hún segir þátttakendur misþyrsta í sigur. „Fæstir eru uppteknir af því að vinna mótið, fólk er fyrst og fremst hingað komið til að njóta þess að spila, hitta aðra sem iðka sömu íþrótt og skemmta sér,“ segir Hanna. Mótið fer fram í Haukahúsinu að Ásvöllum Hafnarfirði sem nú nefnist Schenkerhöllin.

Fékk nafn sitt frá bökum

Íþróttin sem keppt er í heitir ultimate frisbee og er frábrugðin því svifdiskakasti sem flestir Íslendingar þekkja. „Um er að ræða íþrótt sem víðast hvar er þekkt undir nafninu „rugby-frisbee“. Hún fer þannig fram að tvö lið, skipuð 5 þátttakendum, etja kappi. Svo eru tvö marksvæði sem varnamenn verja og reglur sem setja keppendum skorður,“ segir Hanna sem sjálf hefur iðkað íþróttina í 20 ár. Aðspurð segist hún hafa komist í kynni við hana í Svíþjóð, þar sem hún er búsett. 

Hún segir hafa verið vandasamt að gefa mótinu nafn. „Mótið heitir í raun bara „ultimate“ þar sem frisbee er verndað vörumerki,“ segir hún og rekur í stuttu máli skemmtilega sögu nafnsins: “Á sjöunda áratugnum var fyrirtæki í Bandaríkjunum sem sérhæfði sig í að framleiða alls kyns bökur. Undir bökurnar notuðu þeir form sem merkt voru „frisbee“ og styttu bakararnir sér stundir með því að kasta þeim á milli. Þannig fékk leikfangið nafn sitt og það er verndað sem vörmerki í dag,“ segir Hanna. 

Heljarinnar dagskrá var sett saman í tengslum við mótin, en keppendur dvelja hér á landi fram yfir áramót. „Við förum að Gullfossi og Geysi, í Bláa lónið og út að borða auk þess sem Hafnarfjarðarbær styrkir mótið með því að hleypa þátttakendum frítt í sund á meðan á mótinu stendur. Dagskráin endar svo á stórri veislu á gamlárskvöld,“ segir Hanna. 

Nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka