Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari í máli gegn Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni, segir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur viss vonbrigði en þeir Lárus og Guðmundur voru í dag dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið. Ekki liggur ljóst fyrir hvort dómnum verði áfrýjað.
Lárus, sem er fyrrverandi bankastjóra Glitnis, var viðstaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þegar dómurinn var kveðinn upp yfir honum og Guðmundi. Hins vegar mætti Guðmundur ekki en lögmenn beggja voru við dómsuppkvaðninguna.
Lárus Welding var dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óttars Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 5.089.025 krónur, en 5.089.025 krónur af málsvarnarlaunum verjandans greiðist úr ríkissjóði.
Guðmundur Hjaltason þarf að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórðar Bogasonar hæstaréttarlögmanns, 4.637.225 krónur, en 4.637.225 krónur af málsvarnarlaunum verjandans greiðist úr ríkissjóði.
Ástæðan fyrir því að hluti sakarkostnaðar fellur á ríkissjóð, alls 9,7 milljónir króna, er sú að vörn ákærðu varð mun umfangsmeiri en efni stóðu til. „Loks er til þess að líta að tveir starfsmenn Embættis sérstaks saksóknara hafa sætt kæru í tengslum við störf sín fyrir skiptastjóra þrotabús Milestone ehf., en verjendum var nauðsynlegt að huga að réttarstöðu ákærðu með hliðsjón af upplýsingum um það efni,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.
Fleiri mál í gangi
Að sögn Hólmsteins er enn of snemmt að segja til um framhaldið en bæði ákæruvaldið, það er ríkissaksóknari, og þeir dæmdu hafa fjórar vikur til þess að taka ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað.
Hann tekur fram að málið nú sé það fyrsta af fleirum sem tengjast Glitni en fyrr í mánuðinum voru Lárus og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik í Aurum Holding-málinu í ákæru sérstaks saksóknara. Þá eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, einn fyrrverandi eigenda Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis, ákærðir fyrir hlutdeild í umboðssvikunum.
Lárusi og Guðmundi var gefið að sök að hafa föstudaginn 8. febrúar 2008 samþykkt lánveitingu til Milestone ehf. í formi peningamarkaðsláns að fjárhæð 102.162.470,12 evrur, um 10 milljarðar króna á þeim tíma, án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum Glitnis banka hf. um lánveitingar og markaðsáhættu og að hafa með því misnotað aðstöðu sína og stefnt fé Glitnis banka hf. stórfellda hættu.
Samkvæmt ákæru er miðað við að lánið hafi átt að endurgreiða mánudaginn 11. febrúar 2008. Milestone ehf. hafi á þessum tíma verið skilgreint í áhættumatsflokki 4, sem falið hafi í sér að ákærðu hafi, sem meðlimir áhættunefndar, einungis getað heimilað lánveitingar til félagasamstæðunnar Milestone ehf. er, ásamt eldri lánum samstæðunnar, hafi rúmast innan 17% af eigin fé Glitnis banka hf. sem hafi á þeim tíma verið 225,576 milljarðar króna. Með ákvörðun sinni hafi ákærðu farið út fyrir heimildir sínar þannig að heildarlánveitingar félagasamstæðu Milestone hafi farið 4,1 milljarð umfram heimildir.
Dómur taldi sannað að þeir hafi samþykkt lánveitingu
Bæði Guðmundur og Lárus neituðu sök. Byggðu þeir varnir sínar annars vegar á því að þeir hafi ekki tekið ákvörðun um að lána Milestone ehf. umrætt lán föstudaginn 8. febrúar 2008, heldur hafi þeir tekið ákvörðun um að veita Vafningi ehf. lán þennan dag og eingöngu ritað undir lánsskjöl því tengt. Hins vegar byggja þeir varnir sínar á því, verði talið að sannað sé að þeir hafi heimilað umrædda lánveitingu, að ekki séu uppfyllt efnisskilyrði ákvæðis 249. gr. laga nr. 19/1940 til að ákærðu verði sakfelldir fyrir umboðssvik. Að auki er byggt á neyðarrétti og neyðarhjálp.
Í niðurstöðu fjölskipaðs dóms kemur fram að það sé fráleitt að starfsmaður Glitnis, sem bar vitni í málinu, hafi upp á sitt eindæmi, ákveðið að veita Milestone ehf. umrætt peningamarkaðslán og breytt skjalinu í þeim tilgangi. Taldi dómurinn sannað að þeir Guðmundur og Lárus hafi samþykkt lánveitingu til Milestone ehf., í formi peningamarkaðsláns, að fjárhæð 102.162.470,12 evrur.
Samkvæmt almennum hegningarlögum varðar það fangelsi allt að 2 árum, ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. Þyngja má refsingu í allt að 6 ára fangelsi, ef mjög miklar sakir eru.
Helsta einkenni umboðssvika er misnotkun á þeim trúnaði sem felst í ákveðinni aðstöðu með fjárhagslegri ráðstöfun í skjóli aðstöðunnar í því skyni að afla sér eða öðrum fjárvinnings á kostnað annarra. Ásetningur þarf að taka til allra þátta verknaðarlýsingar ákvæðisins og auk þess er auðgunarásetningur skilyrði refsinæmis. Umboðssvik eru fullframin við ólögmæta ráðstöfun fjárverðmæta, svo sem við ólögmæta samþykkt skuldbindingar fyrir hönd lögaðila. Til að brot sé fullframið nægir að sýna fram á fjártjónshættu án tillits til raunverulegs fjártjóns.
Hætta á greiðslufalli ekki metin til refsingar
„Fyrir liggur að unnið hafði verið að því um nokkurt skeið að veita Vafningi ehf. lán af hálfu Glitnis banka hf. til endurfjármögnunar á láni Þáttar International ehf. hjá fjármálasamsteypunni Morgan Stanley. Samkvæmt ákæru var lán þetta veitt Vafningi ehf. mánudaginn 11. febrúar 2008 og andvirði lánsins notað til að greiða upp peningamarkaðslán Milestone ehf. hjá Glitni banka hf.
Samkvæmt mati áhættunefndar Glitnis banka hf., sem hafði það hlutverk með höndum að leggja mat á áhættu tengda mótaðila í viðskiptum, var Milestone ehf. í áhættumatsflokki 4 hjá bankanum. Þá liggur fyrir í gögnum sem lágu fyrir áhættunefnd 5. og 6. febrúar 2008 að heildarskuldbindingar félagasamstæðu Milestone ehf. námu á þeim tíma 32,4 milljörðum króna. Er það í samræmi við framburð beggja ákærðu hér fyrir dómi. Á sölugengi evru 8. febrúar 2008 nam peningamarkaðslán Glitnis banka hf. til Milestone ehf. 10.019.073.445 krónum. Með því að veita Milestone ehf. áðurgreint peningamarkaðslán fór heildarskuldbinding félagasamstæðu Milestone ehf., því úr 32,4 milljörðum króna í 42,4 milljarða króna. Samkvæmt ákæru fól þetta í sér að heildarlánveitingar félagasamstæðu Milestone ehf. urðu 4,1 milljarður króna umfram heimildir samkvæmt almennum útlánareglum Glitnis banka hf.
Verjendur ákærðu hafa haldið því fram að svigrúm til lánveitinga til félagasamstæðu Milestone ehf. hafi verið meira að teknu tillit til leyfilegra frádráttarliða vegna lána til Askar Capital hf., Avant hf. og Sjóvá-Almennra trygginga hf., svo sem heimilt hafi verið að gera samkvæmt p-lið 4 gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007. Hvað sem þessum staðhæfingum líður verður ekki fram hjá því horft að við meðferð lánamáls Vafnings ehf. hjá Glitni banka hf., meðal annars hjá áhættunefnd bankans 5. og 6. febrúar 2008, var litið svo á að hámark lánveitinga til félagasamstæðu Milestone ehf. næmi 17% af vegnu eigin fé bankans, eða um 38 milljörðum króna. Eru ekki efni til að skýra útlánareglur bankans með öðrum og rýmri hætti en lagður var til grundvallar við þessa meðferð lánamálsins.
Samkvæmt ákæru verður fjártjónshætta Glitnis banka hf., vegna háttsemi ákærðu, rakin til þess að skuldbinding Milestone ehf. hafi verið færð yfir á Vafning ehf. 11. febrúar 2008 og nemi eftirstöðvar þess láns 53.718.244 evrum, sem ekki hafi verið endurheimtar frá Vafningi ehf. Eins og málið liggur fyrir verður ekki á þetta fallist. Því er þannig ekki haldið fram af ákæruvaldinu að Vafningur ehf. hafi fallið undir félagasamstæðu Milestone ehf. eða að lánveitingin 11. febrúar 2008 til Vafnings ehf. hafi verið refsiverð. Eru þannig engin efni til að líta til annarrar háttsemi ákærðu en þeirrar að veita Milestone ehf. peningamarkaðslán frá föstudeginum 8. febrúar 2008 til mánudagsins 11. sama mánaðar.
Við mat á fjártjónshættu vegna háttsemi ákærðu verður að líta til þess að veitingu láns hlýtur, eðli málsins samkvæmt, að fylgja hætta á greiðslufalli. Verður það því ekki metið ákærðu til refsileysis þótt hættan á greiðslufalli Milestone ehf. væri metin lítil að teknu tilliti hins skamma lánstíma og áhættumatsflokkunar Milestone ehf. í gögnum Glitnis banka hf.,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Í ákæru er miðað við að hin ólögmæta lánveiting til Milestone hafi verið án trygginga eða ábyrgðar. Á þetta féllust dómarara ekki á þar sem þann dag sem lánið var veitt hafði bankinn allsherjarveð í hlutabréfum í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að nafnverði 349.999.999 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu Milestone ehf. frá 8. febrúar 2008, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum Milestone ehf. þá eða síðar við Glitni banka hf.
Þá lá fyrir að 28. febrúar 2007 hafði Milestone ehf. gefið út samskonar handveðsyfirlýsingu þar sem hlutabréf SJ2 ehf. í Teymi hf. að nafnvirði 310.186.766 krónur, höfðu verið sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á fjárskuldbindingum Milestone ehf. þá eða síðar við Glitni banka hf. Þó svo að vafi leiki á um hvort allsherjarveð þessi hafi verið nægjanleg fyrir þeirri viðbótarskuldbindingu sem fólst í lánveitingunni til Milestone ehf. umræddan föstudag liggur engu að síður fyrir að bæði tryggingar og ábyrgðir voru til staðar. Verður vafi um atvik málsins að þessu leyti skýrður ákærðu í hag og því ekki fallist á þennan hluta í verknaðarlýsingu ákæru.
Fóru út fyrir heimildir og misnotuðu aðstæður sínar
„Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærðu hafi 8. febrúar 2008 samþykkt að veita Milestone ehf. peningamarkaðslán með ólögmætum hætti að fjárhæð 102.162.470,12 evrur og þannig bakað Glitni banka hf. fjártjónshættu.
Með lánveitingunni fóru ákærði, Lárus Welding, sem bankastjóri, og ákærði, Guðmundur Hjaltason, sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis banka hf., út fyrir heimildir sínar í störfum sínum og skuldbundu með þeim Glitni banka hf. með ólögmætum hætti. Misnotuðu ákærðu með þessu aðstöðu sína og gerðust þar með sekir um þá háttsemi sem lýst er refsiverð í 249. gr. laga nr. 19/1940. Sú fjárhæð sem ákærðu samþykktu var veruleg, hvort sem litið er til reksturs Glitnis banka hf. eða almenns mælikvarða.
Eins og málið liggur fyrir verður hins vegar lagt til grundvallar að hinu ólögmæta ástandi og fjártjónshættu bankans af völdum ákærðu hafi lokið mánudaginn 11. febrúar 2008 þegar peningamarkaðslánið var greitt upp.
Að virtum atvikum málsins og aðstæðum ákærðu fellst dómurinn ekki á að gerðir ákærðu geti réttlæst af neyðarrétti eða neyðarhjálp. Verða ákærðu því sakfelldir fyrir umboðssvik og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með hliðsjón af þeim skamma tíma sem hið ólögmæta ástand stóð yfir og takmarkaðri fjártjónshættu, geta sakir ákærðu þó ekki talist miklar, “ segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Reyndu ekki að afla sjálfum sér beins persónulegs ávinnings
Við ákvörðun refsingar er tekið tillit til þess að tvímenningarnir leituðust ekki við að afla sjálfum sér beins persónulegs ávinnings með brotum sínum og töldu háttsemina þjóna hagsmunum Glitnis banka hf. og íslenska fjármálakerfinu.
Svo sem áður greinir hafa ekki verið færð fyrir því viðhlítandi rök að þessi háttsemi ákærðu hafi út af fyrir sig leitt til fjártjóns fyrir Glitni banka hf. Hins vegar er óhjákvæmilegt að líta til þess að um verulega fjárhagsskuldbindingu var að ræða. Með hliðsjón af þessu er refsing beggja ákveðin fangelsi í 9 mánuði, sem að hluta verður bundið skilorði í sex mánuði.