Lífið snérist við á örskotsstund

„Ég byrjaði að æfa skíði þegar ég var átta ára og æfði fótbolta á sumrin. Íþróttir og útivist hafa alltaf verið helsta áhugamálið mitt,“ segir Arna Sigríður Albertsdóttir sem tók meðvitaða ákvörðun fyrir ári síðan um að leggja alfarið áherslu á líkamlega uppbyggingu.

Þegar Arna Sigríður var aðeins 16 ára gömul var hún í æfingaferð með Skíðafélagi Ísafjarðar í Geilo í Noregi. Hún var í hópi með æfingafélögunum og þjálfurum sem hafa það að leiðarljósi að byggja upp framtíð ungmenna sinna. Í þessari ferð, sem átti að vera skemmtun ein, þann 30. desember árið 2006, snerist veröld Örnu Sigríðar við.

„Ég man eftir byrjun dagsins en síðan man ég voðalega lítið. Mér hefur verið sagt að ég hafi dottið og runnið á tré. Ég var flutt með þyrlu á næsta sjúkrahús en þar var ekki hægt að taka á móti svo alvarlegu tilfelli þannig að ég var flutt með sjúkrabíl til Osló. Ég tók eftir því að ég fann ekkert fyrir neðan brjóst en ég vissi samt ekkert hvað það þýddi í fyrstu. Það var auðvitað geðveikt ógnvekjandi en ég skildi ekki alvarleikann strax.“

Sjokkið kom hægt og bítandi

Arna Sigríður dvaldi á sjúkrahúsi í viku úti í Noregi og síðan var flogið með sjúkraflugi til Íslands. Hún segir aldur sinn hafa eflaust átt stóran þátt í því hversu varlega fólk nálgaðist hana.

„Þegar fólk er með mænuskaða er því sagt að endanlegur skaði komi ekki í ljós fyrr en eftir átta mánuði. Það getur alltaf verið að mænan sé bara bólgin og bólgan gangi til baka og maður fái aftur tilfinninguna ogmáttinn. Þegar ég slasaðist þá var hryggurinn brotinn og það þurfti að spengja hann. Þá notuðu læknarnir tækifærið í aðgerðinni og skoðuðu mænuna og þeir sáu alveg að þetta leit ekkert vel út. Ég náði þessu samt ekkert strax. Þetta var svo óraunverulegt. Maður heldur alltaf að það komi ekkert fyrir mann. Sjokkið kom svona hægt og bítandi,“ segir Arna Sigríður þegar hún rifjar upp fyrstu dagana eftir slysið.

Hún var fljótlega send á Grensás og var þar í endurhæfingu í átta mánuði. „Ég þurfti að læra allt upp á nýtt eins og til dæmis að klæða mig. Fyrir mig var erfiðast að læra að setjast upp aftur af því að ég gat ekki lengur stjórnað magavöðvunum.“

Eftir dvölina á Grensás fór Arna Sigríður aftur til Ísafjarðar og var þar í reglubundinni sjúkraþjálfun. Eftir að hún varð tvítug flutti hún suður og ákvað að fara í einkaþjálfun. „Ég var vön að vera í miklum æfingum á skíðunum. Æfingarnar í sjúkraþjálfuninni reyndust mér mjög vel og gera enn. Þær æfingar eru samt aldrei eins miklar og erfiðar og æfingarnar sem ég var í áður þegar ég var að æfa skíði. Ég tók mér alveg pásu frá skólanum og ákvað að leggja alla áherslu á æfingarnar og einkaþjálfunina. Ég er mjög sátt við það núna en æfingarnar hafa gert meira fyrir mig en ég átti von á.“

Arna Sigríður hefur notið leiðsagnar Fannars Karvels íþróttafræðings sem hefur hjálpað fleirum með mænuskaða. „Fannar hefur svo mikinn áhuga og er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og finna fjölbreyttar æfingar. Það er ekkert mál að detta í eitthvað einhæft af því að ég get bara notað hendurnar.“

Arna Sigríður er í einkaþjálfun hjá Fannari þrisvar í viku en að auki er hún í hjólastólahandbolta tvisvar í viku, hjólastólakörfubolta tvisvar í viku, hjólar þegar hún getur, ásamt því að fara eins mikið á skíði og mögulegt er. Þegar Arna Sigríður er innt eftir því hvort hún hafi ekki verið bitur út í fjallið fyrst þegar hún fór á skíði segir hún að sér hafi einfaldlega þótt gaman að vera komin aftur upp í fjall.

Arna Sigríður hefur stundað skíðamennskuna með Kristínu Sigurðardóttur vinkonu sinni sem lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum. Árið 2009 fóru þær á námskeið á Akureyri til að læra á mónóskíði og hafa þær ekki hætt síðan.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert