Björgunarsveitirnar í Þingeyjarsýslu og hinn almenni björgunarsveitarmaður eru Þingeyingar ársins 2012 samkvæmt vali lesenda Skarps.is, 640.is og 641.is.
Þetta varð ljóst nú í hádeginu, þegar kosningu um Þingeying ársins 2012 lauk á fréttamiðlunum þremur. Þetta eru Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit, Björgunarsveitin Þingey, Hjálparsveit skáta í Reykjadal og Hjálparsveit skáta í Aðaldal, allar í Þingeyjarsveit og Björgunarsveitin Garðar á Húsavík.
Mikið álag var á björgunarsveitarfólki í Þingeyjarsýslu í september við að bjarga sauðfé sem fennti í septemberóveðrinu og unnu björgunarsveitirnar ómetanlegt starf með bændum og sjálfboðaliðum. Þar fyrir utan eru þær alltaf tiltækar við leit og björgun í öllum veðrum, alla daga og nætur.