Stúlkurnar tvær sem handteknar voru fyrir fíkniefnasmygl í byrjun nóvember sitja enn í gæsluvarðhaldi í fangelsi í Tékklandi. Allar líkur eru á því að ekki komist hreyfing á málið fyrr en í byrjun febrúar, en lögum samkvæmt má halda þeim í gæsluvarðhaldi í að minnsta kosti þrjá mánuði eða þar til dómur fellur.
Stúlkurnar, sem eru 18 ára, voru handteknar á flugvellinum í Prag hinn 7. nóvember síðastliðinn en kókaín hafði fundist í farangri þeirra. Efnið var vandlega falið inni í fóðri töskunnar, en ekki er vitað um hversu mikið magn var að ræða. Rannsókn málsins er í höndum tékknesku lögreglunnar, en stúlkunum hefur verið séð fyrir tékkneskum lögmönnum og túlki.
Þórir sá eini sem hefur heimsótt þær í desember
„Lokað hefur verið fyrir heimsóknir um hátíðirnar þannig að ég hef ekki getað heimsótt þær,“ segir Þórir Gunnarsson, ræðismaður Íslands í Tékklandi. „Ég mun heimsækja þær á allra næstu dögum þegar opnar á ný,“ segir Þórir. Að hans sögn hafa þeim ekki borist heimsóknir frá öðrum í desembermánuði.
Ekkert nýtt er að frétta í máli stúlknanna, ekki hefur enn verið ákært í málinu en fram hefur komið að líklegt teljist að ákæran verði gefin út fyrri hluta febrúarmánaðar.
Stúlkurnar eru nú hvor í sínu fangelsinu í höfuðborginni Prag, önnur er í Ruzyně- og hin í Pankrác-fangelsinu. Að sögn Þóris er aðbúnaður þeirra lélegur, þær séu í nokkurs konar einangrun og megi aðeins ræða við tvær konur.