Fimm raflínur eru bilaðar á Vestfjörðum og Vesturlandi vegna veðurofsans undanfarna tvo sólarhringa og hefur það valdið endurteknum truflunum. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er varaafl keyrt í því magni sem mögulegt er. Unnið er að viðgerðum en umfang bilana er mikið og aðstæður víða afar erfiðar.
Geiradalslína 1, GE1, sem liggur milli Glerárskóga og Geiradals, er biluð. Tvær stæður eru brotnar við Sælingsdal. Undirbúningur viðgerðar er í gangi og verið að senda viðgerðarefni á staðinn. Áætlað er að hún verði komin í rekstur seint annað kvöld eða 1. janúar.
Línan grafin í fönn
Mjólkárlína 1, MJ1, sem liggur frá Geiradal að Mjólká er biluð. Bilanaleit er hafin og vitað er að línan er grafin í fönn við Kamb þar sem tvö spenn af línunni eru á kafi í snjó og ís. Unnið er að því að losa línuna. Ófærð er mikil en lögð áhersla á aðkomu að línunni vegna bilanaleitar til að flýta viðgerð eins og mögulegt er.
Tálknafjarðarlína 1, TA1, sem liggur frá Mjólká að Tálknafirði er biluð rétt upp af Fossfirði en skoðun er ekki að fullu lokið.
Breiðadalslína 1, BD1, sem liggur milli Mjólkár og tengivirkisins í Breiðadal er biluð. Bilanaleit hófst í morgun frá Mjólká en skoðanamenn frá Ísafirði komast ekki með línunni vegna mikillar snjóflóðahættu. Vinnuflokkar eru að störfum á svæðinu en á þessari stundu er óljóst hvenær viðgerðum mun ljúka.
Erfiðar aðstæður við Ólafsvík
Á Snæfellsnesi hafa einnig verið miklar rafmagnstruflanir eftir að óveðrið skall á. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er Ólafsvíkurlína 1, OL1, sem liggur frá Vegamótum að Ólafsvík biluð.
Skoðun stendur yfir við erfiðar aðstæður en mikið hvassviðri er enn á svæðinu. Trúlegt þykir að orðið hafi áframhaldandi skemmdir á línunni síðastliðna nótt og mun fleiri stæður brotnar en fram kom við fyrstu athugun. Unnið er að því að taka saman efni í línuna, auka mannskap til viðgerða og eru viðgerðir jafnframt hafnar. Viðgerðartími er áætlaður í það minnsta nokkrir sólarhringar. Verið er að flytja auka-varaafl inn til Ólafsvíkur til að auka afhendingaröryggi og anna álagi.