Eiríkur Bergmann í prófessorsstöðu

Eiríkur Bergmann.
Eiríkur Bergmann.

Dr. Eiríkur Bergmann Einarsson hefur hlotið framgang sem prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir í tilkynningu frá skólanum.

 Eiríkur er doktor í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og Cand. Sci. Pol í alþjóðastjórnmálum frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann er nú prófessor í stjórnmálafræði við félagsvísindasvið og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Eiríkur hefur starfað sem blaðamaður, yfirmaður Íslandsdeildar hjá Evrópusambandinu og sem aðjunkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands auk þess að kenna við ýmsa erlenda háskóla.

 Eiríkur hefur tekið þátt í margvíslegu evrópsku rannsóknarsamstarfi á fræðasviði sínu og verið gistifræðimaður við nokkra erlenda háskóla, svo sem Queen Mary-háskóla í London. Eftir hann liggur fjöldi greina, bæði ritrýndra og almenns eðlis, auk ritgerða, fyrirlestra og bóka um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Hann hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í DV, Fréttatímann og í breska dagblaðið The Guardian.

 Bækur Eiríks eru Ísland í Evrópu [ritstjórn] (2001), Evrópusamruninn og Ísland (2003), skáldsagan Glapræði (2005), Opið land (2007), Hvað með evruna? [ásamt Jóni Þór Sturlusyni] (2008), „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" [doktorsrannsókn] (2009), Frá Evróvisjón til Evróvisjón til Evru (2009) og Sjálfstæð þjóð (2011).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert