Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri á Akureyri, segir að miklir erfiðleikar hafi verið við mjólkursöfnun á Norðurlandi síðustu daga vegna ófærðar. Síðasti mjólkurbíllinn skilaði sér til Akureyrar kl. 3 í nótt.
Samkvæmt áætlun átti að vera búið að sækja mjólk til allra bænda á Norðurlandi fyrir áramót. Það tókst ekki því veður var mjög slæmt á gamlársdag og því lögðu mjólkurbílsstjórar aftur af stað í gær. Ófærðin var mest í Svarfaðardal og í Mývatnssveit. Bíllinn sem fór í Svarfaðardal skilaði sér ekki til Akureyrar fyrr en kl. 3 í nótt. Bílarnir sem komu í gær voru að ná í mjólk sem var orðin fjögurra daga gömul.
Kristín sagði að mjólkurbílar hefðu milli jóla og nýárs þurft að bíða austan við Víkurskarð vegna ófærðar og veðurs og því ekki komist til að skila mjólkinni af sér á Akureyri. Hún sagði að Víkurskarðið væri búið að vera mjög erfiður farartálmi í vetur. Menn biðu því í óþreyju eftir Vaðlaheiðargöngum.
Kristín sagði að þessi vetur væri búinn að vera erfiður í mjólkurflutningum á Norðurlandi. Það hefðu verið truflanir á mjólkurflutningum strax í óveðrinu 10. september og síðan í október hefðu menn nær stöðugt verið að eiga við ófærð.
Lúðvík Hermannsson mjólkurbússtjóri í Búðardal sagði að tekist hefði að komast á síðasta bæinn á Vestfjörðum í morgun, en mjólkurbílsstjóri varð frá að snúa við í gær vegna ófærðar. Nú eru tveir mjólkurbílar á leið um Djúp til Búðardals en þeir bíða eftir að vegagerðarmönnum takist að ljúka snjómokstri í Skötufirði.
Enginn skortur er á mjólkurvörum á Vestfjörðum þrátt fyrir ófærð. Bílar sem fóru vestur milli jóla og ný árs komust til Ísafjarðar í gær eftir að tókst að moka veginn um Súðavíkurhlíð. Lúðvík sagði að farin yrði önnur ferð vestur á morgun.