Snjóflóðahætta á Hofsósi

Vesturfarasetrið á Hofsósi er á snjóflóðahættusvæðinu.
Vesturfarasetrið á Hofsósi er á snjóflóðahættusvæðinu. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Almannavarnir í Skagafirði, í samráði við snjóflóðavakt Veðurstofunnar, hafa ákveðið að loka svæðinu norðan göngubrúar í Kvosinni á Hofsósi vegna snjóflóðahættu. Þar er að finna Vesturfarasetrið, Fánasmiðjuna og smábátahöfnina. Miklar snjóhengjur eru í bökkunum ofan við þetta svæði og talin er hætta á að þær falli fram. Aðstæður verða endurmetnar í fyrramálið.

Þó svo að engar aðrar formlegar rýmingar séu í gangi vegna snjóflóðahættu eru aðstæður víða þannig að mikill snjór er í fjöllum og ástæða til þess að ferðafólk fari varlega. Þetta á sérstaklega við þá sem fara til fjalla en nú þegar hafa borist fréttir af snjóflóðum sem fallið hafa í nágrenni við vélsleðamenn.

Víða á landinu eru hlýindi og rigning og rétt að fólk fylgist með niðurföllum við hús sín vegna hættu á að snjór og klaki stífli þau með tilheyrandi hættu á vatnstjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert