Ekki hefur verið hreinsað almennt heimilissorp úr ruslatunnum á Ísafirði síðan 10. desember síðastliðinn ef undan er skilin hreinsun í blokkaríbúðum 21. desember. Þetta kemur fram á fréttavef Bæjarins besta í dag.
Venjulega er almennt heimilissorp hirt á tveggja vikna fresti en erfið færð innan bæjarins hefur hins vegar leitt til þess að ekki hefur verið hægt að fjarlægja sorpið undanfarnar þrjár vikur. Stefnt er þó að því að fjarlægja sorpið eins fljótt og hægt er.
„Stefnt er að því að tæma tunnur bæjarbúa á Þingeyri og Flateyri á morgun, á Suðureyri og í Holtahverfi á Ísafirði á föstudag, og á laugardaginn verður Hnífsdalur og eyrin á Ísafirði hreinsuð,“ segir í fréttinni.