Enn er hættustig á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Í tilkynningu frá snjóflóðavakt Veðurstofunnar segir að í dag muni hlýna og úrkomusvæði ganga yfir landið.
„Hlýnandi veður getur orsakað snjóflóð án þess að mikla úrkomu þurfi til. Ferðalangar þurfa áfram að hafa varann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Veðurstofan varar við stormi á Suðvesturlandi um tíma í nótt. Vindhraði gæti orðið meiri en 20 m/sek.
Mörg snjóflóð hafa fallið á Vestfjörðum síðustu daga. Snjóflóð hafa m.a. fallið í Skutulsfirði á veginn um Djúp. Snjóruðningsmenn halda í dag áfram vinnu við að ryðja veginn, en það mun taka talsverðan tíma.