Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hefur ákveðið að aflýsa hættustigi vegna snjóflóða sem sett var á í gær fyrir reiti 9 á Ísafirði og bæina Veðrará og Fremri-Breiðidal í Önundarfirði.
Áfram er í gildi óvissustig vegna snjóflóða á Norðanverðum Vestfjörðum, sunnanverðum Vestfjörðum og á Miðnorðurlandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
„Í nótt hlýnaði en ekki varð vart við ný snjóflóð ofan byggðar eða á vegum. Rýmingu hefur verið aflétt alls staðar á Vestfjörðum og óvissuástandi verður væntanlega aflétt síðar í dag. Mikill snjór er víða til fjalla og þurfa ferðalangar að hafa varann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Sérstaklega getur verið varasamt að aka vélsleðum upp í brattar brekkur þar sem snjóflóð geta átt upptök,“ segir í tilkynningu frá snjóflóðavakt Veðurstofunnar.