Versta snjóflóðahrina á Vestfjörðum síðan 2005

Snjóflóð á þekktum snjóflóðastað á Ólafsfjarðarvegi við Sauðanes hinn 1. …
Snjóflóð á þekktum snjóflóðastað á Ólafsfjarðarvegi við Sauðanes hinn 1. janúar 2013. Flóðið féll fram í sjó. Af vef Veðurstofunnar

Snjóflóðahrinan sem valdið hefur vandræðum á Vestfjörðum og Norðurlandi undanfarna daga er líklega versta hrina sem orðið hefur á Vestfjörðum síðan 2005. Mörg snjóflóð féllu yfir vegi og nokkur nærri byggð á norðanverðum Vestfjörðum.

Meðal annars féll stórt snjóflóð úr Stofugili á veginn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og var það um 100 m breitt og 3-4 m að þykkt á veginum og náði lengra, 50 m niður fyrir veginn.

Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofunnar.

 Hrinan hófst með mikilli snjókomu fimmtudaginn og föstudaginn 27. og 28. desember 2012 og ofsaveðri sem skall á aðfaranótt laugardagsins 29. desember. Óvissustigi var lýst yfir á fimmtudeginum og hús voru rýmd í framhaldi af því á Ísafirði, í Hnífsdal, í Súðavík, á Flateyri og á Patreksfirði auk þess sem nokkrir sveitabæir í Syðridal, Önundarfirði og Dýrafirði voru rýmdir.

Snjóflóð féllu úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft á Flateyri meðfram varnargörðunum sem beindu flóðunum frá byggðinni. Stórt snjóflóð klofnaði á varnarfleyg ofan sorpbrennslustöðvarinnar Funa við Skutulsfjörð. Flóðið féll yfir veginn að stöðinni og stöðvaðist nokkuð fyrir neðan bygginguna. Snjóflóð féll á útihús við bæinn Kirkjubæ í Skutulsfirði en olli ekki öðrum skemmdum en þeim að dráttarvél valt á hliðina. Stórt snjóflóð féll við Núp í Dýrafirði og náði langt yfir veginn. Slíkt flóð hefur ekki fallið á þessum stað síðan 1995.

Fjölmörg snjóflóð féllu á vegi á Vestfjörðum, m.a. úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Flóð féllu á nokkrum stöðum yfir veginn á Hvilftarströnd og í Breiðadal í Önundarfirði og yfir vegskála jarðganga við Botn í Súgandafirði. Einnig féll mjög stórt snjóflóð yfir veginn í Kjálkafirði á Barðaströnd.

Snjóflóðahrinan olli miklum truflunum á samgöngum á Norðurlandi þó ekki kæmi þar til rýmingar á húsum. Meðal annars féll stórt snjóflóð úr Stofugili á veginn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og var það um 100 m breitt og 3-4 m að þykkt á veginum og náði lengra, 50 m niður fyrir veginn. Annað stórt flóð féll yfir veginn nokkru norðar á þekktum snjóflóðastað við Sauðanes og féll fram í sjó. Stór snjóflóð féllu einnig í Fnjóskadal og víðar á Norðurlandi.

Hlýnandi veður í lok hrinunnar olli svo hættu á snjóflóðum í meira en sólarhring eftir að veðrið gekk niður og þurfti að rýma nokkur hús aftur að kvöldi 2. janúar 2013 af þeim sökum en rýmingunni var aflétt morguninn eftir.

Fylgjast má með framvindu mála á snjóflóðaforsíðu vefsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert