Væntir fundar í næstu viku

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

„Við óskuðum eftir því að tillagan yrði tekin fyrir á næsta fundi utanríkismálanefndar fimmtudaginn eftir að hún var lögð fram en formaður nefndarinnar felldi hins vegar fundinn niður fyrirvaralaust og án skýringar,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis.

Tillaga sem lögð var fram í nefndinni 18. desember síðastliðinn, þess efnis að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði lögð til hliðar og málið ekki tekið upp á ný nema að undangengnu samþykki í þjóðaratkvæði, hefur ekki verið tekin fyrir í nefndinni. Meirihluti nefndarmanna lagði tillöguna fram en það voru fulltrúar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna auk Jóns Bjarnasonar þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

„Ég geri þá fastlega ráð fyrir því að þegar nefndir þingsins koma saman í næstu viku muni utanríkismálanefnd funda og þetta mál vera á dagskrá,“ segir Ragnheiður en Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við mbl.is í dag aðspurður að ekkert hefði verið ákveðið um það hvenær málið yrði tekið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert