„Ofveiði þjónar engum hagsmunum“

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum reiðubúin að setjast niður með Skotum, og öllum strandríkjunum sem eru aðilar að málinu, og ræða staðreyndirnar á bak við deiluna. Við þurfum að tryggja áframhaldandi sjálfbærni makrílstofnsins fyrir komandi kynslóðir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í grein sem birtist í gær á skoska fréttavef skoska dagblaðsins The Scotsman.

Steingrímur ræðir þar um aðdraganda og inntak deilunnar og bendir meðal annars á að makríllinn gangi mjög á fæðu annarra tegunda í íslensku efnahagslögsögunni. Vísindamenn óttist að vaxandi magn makríls í lögsögunni kunni að valda varanlegum skaða í lögsögu Íslands. Þá sé viðbúið að samhliða hlýnun sjávar eigi makríllinn eftir að færa sig í auknum mæli inn í íslensku lögsöguna.

Ráðherrann gagnrýnir ennfremur Evrópusambandið og Norðmenn harðlega fyrir að ætla sér 90% ráðlags makrílkvóta vegna næsta árs og fyrir að hafa ekki viljað hlusta á ítrekaðar tillögur Íslendinga um að allir aðilar deilunnar drægju hlutfallslega jafnmikið úr veiðum sínum til þess að tryggja að þær væru innan ráðlegginga vísindamanna. Þá leggur hann áherslu á að refsiaðgerðir gegn Íslandi vegna makríldeilunnar muni ekki gera samskipti deiluaðila betri.

„Ofveiði þjónar engum hagsmunum, sem er ástæða þess að við höfum sýnt sveigjanleika og skilning í gegnum allar samningaviðræðurnar við strandríkin,“ segir Steingrímur ennfremur í grein sinni.

Greinin á fréttavef The Scotsman

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert