Nýlega voru samþykkt lög sem heimila einhleypum mæðrum sem hafa eignast börn með tæknifrjóvgun og einhleypum foreldrum sem hafa ættleitt börn eða tekið í fóstur að nýta sér fullan rétt til fæðingarorlofs. Hópur kvenna sem hefur farið þessa leið lagði sitt á vogarskálarnar til að lögin yrðu samþykkt.
Ríflega fjögur ár eru síðan einhleypar konur öðluðust rétt til að eignast börn með tæknifrjóvgun og Hulda Orradóttir er ein þeirra og á tvíburana Unni og Margréti sem eru tveggja ára síðan á aðfangadag. Hulda segir breytinguna kærkomna og auðvelda konum að fara þessa leið en hún er hluti af hópi sem skilaði inn nefndaráliti vegna málsins.
Ekki eru þó allir sáttir við breytinguna. Í áliti Félags um foreldrajafnrétti er breytingin talin hvetja til þess að konur eignist börn án aðstoðar foreldris sem eigi ekki að vera í verkahring löggjafans. „Sérréttindi til kvenna sem kjósa föðurlaus börn til fæðingarorlofs geta vissulega verið slík hvatning.“