Við verðum að hafa öruggt netsamfélag

Þórlaug Ágústsdóttir stjórnmálafræðingur.
Þórlaug Ágústsdóttir stjórnmálafræðingur.

„Þetta snýst ekki um myndirnar lengur. Þetta snýst um ábyrgð stjórnenda Facebook og bætt samskipti á netinu,“ segir Þórlaug Ágústsdóttir stjórnmálafræðingur, sem skipuleggur alþjóðlegar aðgerðir gegn því sem hún segir afskiptaleysi stjórnenda Facebook gegn hótunum og klámi á samskiptasíðunni. „Nú getum við sýnt að Ísland standi fyrir mannréttindi, nú er lag fyrir Ísland að hampa þjóðgildunum.“

Þórlaug stofnaði aðgerðahópinn #TEAMICELAND...to the rescue! sem hyggst beita sér fyrir bættum samskiptum á netinu. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, en hópurinn er orðinn stór og fer sífellt stækkandi. Í honum er fólk víða að úr heiminum sem telur þörf á umræðu um netsamskipti. Þórlaug segir undirtektirnar sýna að virkileg þörf var fyrir stofnun hóps af þessu tagi.

Ætlar ekki að kæra málið

Upphaf þessa má rekja til þess að mynd af Þórlaugu var stolið af facebooksíðu hennar, henni breytt þannig að það leit út fyrir að hún hefði sætt misþyrmingum og hún síðan sett á facebooksíðu hópsins „Karlar eru betri en konur“. Á myndina var skrifuð hvatning um að beita konur ofbeldi.

Þórlaug hafði ítrekað samband við stjórnendur Facebook í því skyni að láta fjarlægja myndina, en þeir urðu ekki við þeirri beiðni fyrr en eftir talsverðan tíma, þrátt fyrir að fjöldi fólks hefði tilkynnt þessa myndbirtingu og óviðeigandi efni á síðunni.

Þórlaug segist vita hverjir hafi verið að verki og að um sé að ræða unga pilta. Hún hafi tilkynnt verknaðinn til lögreglu, en hyggst ekki leggja fram kæru. „Þetta eru ungir strákar og þessi hegðun bendir til þess að þeim líði verulega illa,“ segir Þórlaug og segist einnig hafa tilkynnt atvikið til barnaverndarnefndar vegna ungs aldurs piltana. „Þetta er þá í þeirra höndum, en ég vona að þeir fái þá hjálp sem þeir þurfa á að halda.“ 

Stærra mál en litlir strákar og ég

„Ég er búin að vera svo lengi á netinu, þessir strákar áttuðu sig ekki á því að ég er búin að vera lengur á netinu en flestir þeirra hafa verið til í þessum heimi. Þeir áttuðu sig ekki á því hvaða slag þeir voru að fara að taka þarna,“ segir Þórlaug.

„Þetta er miklu stærra mál heldur en litlir strákar á Íslandi og ég. Þetta er spurning um samskiptareglur á Facebook. Hvað ætlar Facebook að gera? Það er verið að hvetja okkur til að stofna þar síður undir nafni. Tengjast vinum okkar og kunningjum, leggja persónu okkar og æru okkar þarna inn og síðan erum við ekki örugg þarna fyrir tölvuárásum. Það er algjörlega óboðlegt.

Við erum að tala um sjálfsögð mannréttindi. Á Facebook fá raunverulegar nauðgunarmyndir að hanga inni, þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir. Myndin af mér var ekki tekin út fyrr en fjölmargir höfðu beðið um að hún yrði tekin út, sjálf hafði ég haft samband fjórum sinnum. Þetta gefur vísbendingu um að það sé ekki allt í lagi þarna innanhúss. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við að þetta sé tæknilegt vandamál, ég veit betur,“ segir Þórlaug.

Facebook er þriðja stærsta samfélag heims

Hún segir að þar sem Facebook sé í nokkurs konar löggjafahlutverki með því að setja notkunarskilmála þurfi stjórnendur þar líka að vera framkvæmdavaldið. „Það er að segja; ef þeir ætlast til þess að við tökum þátt í þessu þriðja stærsta samfélagi heimsins. Ef þetta á að vera grundvöllur fyrir alþjóðlega umræðu og skoðanaskipti í alþjóðasamfélaginu inn í 21. öldina, þá er ekki hægt að sætta sig við þetta.“

Þórlaug segist telja að dagar Facebook verði brátt taldir, verði ekki unnin bót á. „Hreyfingar eins og Píratahreyfingin, sem leggur áherslu á mannúðarsjónarmið og opin gögn, gætu vel tekið það að sér að búa til netsamfélag. Þetta er fólk með réttu prinsippin.“

Ekki gott að vera með stóra bróður á netinu

Þórlaug nefnir dæmi um hættur þess að nethegðun fólks sé látin óáreitt. „Breivik spýtti út úr sér hatri á netinu í mörg ár án þess að nokkur skipti sér af. Hann var skilgreindur sem einhver gæi sem var að rugla heim hjá sér. Ég er ekki að segja að það sé gott að vera með einhvers konar stóra bróður og alls ekki stjórn alls staðar á netinu, ég held að það gæti verið stórhættulegt. En samskiptamiðla þarf að reka af ábyrgð.“

Hópurinn #TEAMICELAND...to the rescue! beitti sér á samskiptamiðlum, Facebook, Twitter og víðar, á föstudaginn. Þar var haft samband við fjölmiðla, skilaboðum komið á framfæri og vefir til undirskriftasafnana virkjaðir. Fjallað hefur verið um málið víða, til dæmis hefur danska sjónvarpsstöðin TV2 tekið það upp.

„Við höfum tækifæri til að breyta þessu,“ segir Þórlaug. Við erum eitt þroskaðasta netlandið í heiminum og höfum verið það lengi. Við erum nánast öll á netinu. Internetið skiptir máli í nútíð, en ekki síður í framtíð. Við verðum að stilla okkur af inn í 21. öldina. Þetta gengur ekki lengur svona, við verðum að hafa einhvers staðar öruggt netsamfélag.“

Facebook er þriðja stærsta samfélag heims, segir Þórlaug.
Facebook er þriðja stærsta samfélag heims, segir Þórlaug. AFP
Myndin af Þórlaugu sem var breytt og birt á Facebook.
Myndin af Þórlaugu sem var breytt og birt á Facebook. www.facebook.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka