Var tvo sólarhringa á vakt

Sigþór Guðbrandsson hefur staðið vaktina síðustu daga hjá Rarik í …
Sigþór Guðbrandsson hefur staðið vaktina síðustu daga hjá Rarik í Ólafsvík. Skessuhorn/Þröstur

Síðustu dagar hafa verið annasamir hjá Sigþóri Guðbrandssyni, starfsmanni Rarik í Ólafsvík, en hann er ábyrgur fyrir því að dísilrafstöðvar fyrirtækisins framleiði rafmagn. Allt rafmagn í Ólafsvík, Hellisandi og Rifi hefur verið framleitt með varafli í heila viku. Sigþór var á vakt fyrstu tvo sólarhringana, en þegar ljóst var að langan tíma tæki að gera við Ólafsvíkurlínu var maður fenginn frá Hornafirði til að leysa Sigþór af.

„Það er búinn að vera langur vinnudagur hjá flestum starfsmönnum Rarik síðustu daga, ekki síst hjá okkur sem sjáum um dísilvélarnar,“ segir Sigþór.

Venjulega eru tveir menn í Ólafsvík til taks ef þörf er á að nýta dísilrafstöðvarnar. Annar þeirra hafði skroppið í frí til Noregs þegar óveðrið skall á 28. desember og því var Sigþór einn á vakt.

Rekstur á dísilrafstöðvum er sérhæfð vinna sem krefst þekkingar sem aðeins fáir starfsmenn Rarik búa yfir. Í Ólafsvík er verið að keyra átta dísilrafstöðvar og eina vatnsvél. Sigþór segir að þessar vélar þurfi að vinna saman til að engir hnökrar séu á orkudreifingu. Þess vegna þarf að vakta vélarnar allan sólarhringinn meðan þær eru í notkun.

„Við þurftum að fá mann frá Hornafirði því einn maður getur ekki vakað í sjö sólarhringa,“ sagði Sigþór. „Þegar kom í ljós að þetta yrði meira en þriggja sólarhringatörn þá varð að fá mann á móti mér. Hann var bara til á Hornafirði. Pétur Unnsteinsson brást vel við og yfirgaf sína fjölskyldu fyrir áramót til að vinna í Ólafsvík. Hann kom strax keyrandi og var kominn á miðnætti aðfaranótt sunnudags, en þá var ég búinn að vera á vakt samfleytt í tvo sólarhringa.“

Þakkar íbúum fyrir að spara rafmagn

50-60 staurastæður eru brotnar í Ólafsvíkurlínu og þarf að byggja hana upp frá grunni á stórum kafla. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á sunnudag.

„Þetta er 1800 manna samfélag sem við erum að halda orku á. Við erum heppin núna því að það hefur hlýnað í veðri. Hér er rafhitun sem þýðir að við erum að nota um 85% meira rafmagn en þar sem er hitaveita,“ segir Sigþór.

Ekki hefur þurft að skammt rafmagn í Snæfellsbæ síðan rafmagnið komst á. Nokkurn tíma tók að koma rafmagninu á, m.a. vegna seltu á endabúnaði á línum. Slökkviliðið aðstoðaði við þrífa búnaðinn. Síðan hefur allt gengið vel og ekki hefur þurft að skammta rafmagn. Þó kom upp smábilun í nótt þegar rafmagn fór af að hluta í um eina klukkustund. M.a. fór rafmagn af fangelsinu á Kvíabryggju.

Fiskvinnslan í Snæfellsbæ er kominn af stað með sína starfsemi eftir jólafrí. Sigþór segir að það hafi gengið vel. „Íbúar hérna hafa tekið alveg sérstaklega vel í tilmæli um orkusparnað og án þeirra væri þetta ekki hægt. Gamlárskvöld er orkufrekasti dagur ársins hjá okkur, en það var aðdáunarvert hvað íbúar á svæðinu gátu dreift notkuninni. Það urðu því engin vandamál út af því. Ef gamlárskvöld er undanskilið hefur notkunin þessa daga ekki verið meiri en á góðum sumardegi,“ segir Sigþór.

Vill að hitunarkostnaður verði jafnaður líkt og símakostnaður

Sigþór er óhress með að ekki skuli hafa tekist samstaða um að jafna kostnað við rafhitun milli landsmanna. „Við höfum barist lengi fyrir því að jafna hitunarkostnað milli landsmanna, en við höfum talað fyrir daufum eyrum meðal ráðamanna hingað til. Á sínum tíma var símakostnaður jafnaður milli landsmanna og sama er með eldsneytisverð. Bensínið kostar jafnmikið í Ólafsvík og Reykjavík. Það þykir sjálfsagt í dag að menn borgi það sama í dag fyrir síma og eldsneyti hvar sem menn eru staddir, en það sama virðist ekki mega gilda um húshitun.

Þetta er ekki stór hluti landsmanna sem býr við þessar aðstæður; kannski 10% landsmanna. Þetta eru sveitabæir og nokkrir þéttbýlisstaðir. Raforkan er smávægilega niðurgreidd í dag.  Meðaleinbýlishús hér í Ólafsvík er að borgar 40 þúsund krónur fyrir rafmagn og hita,“ segir Sigþór.

Viðgerðarmenn hafa í heila viku unnið að viðgerð á Ólafsvíkurlínu …
Viðgerðarmenn hafa í heila viku unnið að viðgerð á Ólafsvíkurlínu og er viðgerð ekki lokið enn. Myndin er úr myndasafni. mbl.is/Kristján Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert