Allir vegir í Heiðmörk malbikaðir

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með umfangsmikla starfsemi í Heiðmörk.
Skógræktarfélag Reykjavíkur er með umfangsmikla starfsemi í Heiðmörk. mbl.is/RAX

Tillaga um deiliskipulag fyrir Heiðmörk gerir ráð fyrir að allir akvegir í Heiðmörk verði lagðir bundu slitlagi. Gert er ráð fyrir núverandi vegur yfir Sundholt verði færður til og lögð verði ný brú yfir Álinn á milli Helluvatns og Elliðavatns.

Deiliskipulagstillagan er núna til meðferðar hjá Reykjavíkurborg en frestur til að gera athugasemd við skipulagið rann út í september.

Í Heiðmörk er vatnsból Reykvíkinga, en öll Heiðmörk innan Reykjavíkur, að undanskildu litlu svæði norðan Silungapolls að Suðurlandsvegi, er skilgreint sem vatnsverndarsvæði. Allar framkvæmdir á vatnsverndarsvæðum eru háðar leyfum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og fylgt verður ströngustu ákvæðum laga og reglugerða varðandi allar framkvæmdir á vatnsverndarsvæðum.

Reikna með aukinni umferð í Heiðmörk

Heiðmörk gegnir hins vegar fjölbreyttara hlutverki en að vera vatnsból Reykvíkinga því þar er útivistarsvæði sem er mikið sótt af íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Í deiliskipulagstillögunni er lögð áhersla á að Heiðmörk verði áfram útivistarsvæði og raunar er gert ráð fyrir að umferð um hana aukist.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að umferð um Heiðmörk hefur aukist sl. 10 ár miðað við umferðartölur Vegagerðarinnar frá 2000 en þá sér í lagi frá árinu 2004 til 2009 þar sem umferð hefur stigvaxið ár frá ári. Árdagsumferð um Heiðmerkurveg árið 2000 var að meðaltali 207 á dag en árið 2009 var umferðin komin upp í 370 bíla á dag.

Umferðarspáin gerir ráð fyrir að með auknu vægi hjólreiða um svæðið með bættum hjólastígum og tengingum við útivistarstíga höfuðborgarsvæðið muni umferð um svæðið aukast að jafnaði um 2% á ári. Það þýðir að árið 2020 er gert ráð fyrir að árdagsumferð um Heiðmörk verði um 450 bílar.

Samkvæmt könnun sem gerð var haustið 2005 komu um 28.000 Reykvíkingar að heimsækja Heiðmörk mánaðarlega. Ef þessar niðurstöður eru yfirfærðar á alla íbúa höfuðborgarsvæðisins má áætla að um 45.000 manns komi á svæðið á mánuði. Það gera um 500.000 gesti árlega eða tæplega 1.400 manns að jafnaði á dag.

Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir tilfærslu á vegi sem liggur núna yfir Sundholt. Gamli vegurinn verður nýttur sem göngu‐ og reiðleið en nýr vegur verður lagður austan við Sundholtið með nýrri akstursbrú yfir Álinn á milli Helluvatns og Elliðavatns. Gert er ráð fyrir að akvegir um Heiðmörk séu lagðir bundnu slitlagi sem valið verður m.t.t. vatnsverndunarsjónamiða.

Uppbygging á göngustígum og reiðstígum í Heiðmörk

Tillagan gerir einnig ráð fyrir uppbyggingu á göngustígum sem munu tengja stígakerfi á Elliðavatnsheiði betur við jaðarsvæði. Gert er ráð fyrir tengingu Heiðmerkur við Bláfjöll með stíg sem mun liggja um Hólmshraun að útivistarsvæði við Selfjall og sem leið liggur í Bláfjöll. Stofnstígar munu tengja Heiðmörk við nærliggjandi byggð í Norðlingaholti og íbúðarbyggð í landi Vatnsenda.

Reiðslóðir liggja um Heiðmörk og samkvæmt tillögunni verður ekki raskað við þeim. Gert er ráð fyrir nýjum reiðslóðum meðfram núverandi vegum um Vatnsveituveg. Þar sem reiðslóðar og gönguleiðir liggja saman er gert ráð fyrir aðgreiningu leiða þar sem því verður við komið, þá annaðhvort með grasbelti, runnum eða trjám.

Til að draga úr líkum á að mengun berist frá umferð í grunnvatn í Heiðmörk er gert ráð fyrir að draga úr umferðarhraða og hámarkshraði verði takmarkaður við 50 km/klst og eftir atvikum lægri á völdum köflum innan svæðisins. Umferð olíuflutningabifreiða og annarra bifreiða með mengandi farm er bönnuð um Heiðmörk. Þar sem vegir liggja um brunnsvæði verða settar olíugildrur þar sem m.a. verður notast við jarðvegsdúka

Í greinargerðinni kemur fram að verndarsvæðin í Heiðmörk séu viðkvæmust þar sem álag gesta er mest. Þar sem núverandi áningarstaðir og áningarsvæði séu oft á tíðum þéttsetin er gert ráð fyrir að dreifa nýjum áningarstöðum á fleiri svæði til þess að yfirkeyra ekki núverandi svæði.

Aukin skógrækt í Heiðmörk

Á næstu áratugum stefnir Skógræktarfélag Reykjavíkur að ræktun allra þeirra trjátegunda sem geta þrifist þokkalega í Heiðmörk. Fjölbreytni tegunda verði aukin til að auka gildi útivistar. Áfram verði haldið ræktun barrtrjáa sem er tekjugjafi félagsins til að standa undir hluta af rekstrarkostnaði Heiðmerkur. Í greinargerðinni segir að skógar og allur annar gróður og jarðvegur vinni það þarfa verk að vernda vatnsból höfuðborgarsvæðisins fyrir hugsanlegri mengun, sem eins konar sía.

Ekki er gert ráð fyrir að sumarhúsabyggð verði í Heiðmörk og var sumarhúsaeigendum gert að fjarlægja hús sín fyrir 31. desember sl. eins og fram kom í frétt mbl.is. Orkuveitan segir að það sé gert til að vernda vatnsbólin í Heiðmörk.

Í byrjun þessa árs gerðu Skógræktarfélagið, Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur með sér þjónustusamning um Heiðmörk.

Nánar um deiliskipulagstillöguna

Mengunaróhöpp hafa orðið í Heiðmörk vegna umferðar frá bílum.
Mengunaróhöpp hafa orðið í Heiðmörk vegna umferðar frá bílum. mbl.is/Jakob Fannar
Vegir í Heiðmörk hafa oft verið í slæmu ástandi.
Vegir í Heiðmörk hafa oft verið í slæmu ástandi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert