Skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að leggja til hliðar tillögu um deiliskipulag fyrir Heiðmörk. Hörð gagnrýni kom fram á tillöguna, m.a. frá Orkuveitu Reykjavík sem vill koma í veg fyrir gegnumakstur um viðkvæmt áhrifasvæði vatnsbóla höfuðborgarinnar í Heiðmörk. Tillagan gerir ráð fyrir að vegir séu malbikaðir og reiknað er með að umferð aukist.
Fjölmargir gerður athugasemdir við tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Heiðmörk. Eftir að skipulagsráð fékk málið til umsagnar að nýju ákvað ráðið að stöðva vinnu við tillöguna. Vinna við tillöguna verður ekki hafin að nýju nema með formlegri auglýsingu í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Fjölmargir gerðu athugasemdir við tillöguna. Ekki verður annað séð af umsögn Orkuveitunnar en að tillagan fái algera falleinkunn. „Höfuðborgarborgarbúar hafa undanfarna áratugi ekki þurft að hafa áhyggjur af gæðum drykkjarvatnsins og líta á hreint vatn sem sjálfsagðan þátt í daglegu lífi. Svo virðist sem íbúar á svæðinu leiði sjaldan hugann að því hvort öryggi drykkjarvatns sé ógnað. Mikilvægt er að þeir sem marka stefnu og taka ákvarðanir um landnotkun geri sér grein fyrir mikilvægi hreins neysluvatns, þannig að koma megi í veg fyrir uppbyggingu sem ógnar vatnsvernd.“
Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir að Heiðmörk verði áfram mikilvægt útivistarsvæði fyrir höfuðborgarbúa. Gert er ráð fyrir að leggja malbikaða vegi um svæðið og reiknað er með að umferð aukist. Orkuveita Reykjavíkur telur þessa miklu umferð ekki samrýmast því markmiði að tryggja öryggi drykkjarvatns. Umferð við brunnsvæði vatnstökusvæða (þ.e. um Hjallabraut og Heiðarveg, en einnig um Hraunholtsveg og Strípsveg) skapi „óviðunandi hættu fyrir drykkjarvatn höfuðborgarbúa“.
Niðurstaða Orkuveitu Reykjavíkur er að loka eigi fyrir almenna umferð ökutækja um Heiðarveg, Hjallabraut, Hraunholtsveg og Strípsveg. Jafnframt að umferð hestamanna verði beint á stíg vestan brunnsvæðanna, eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi. Þannig geti Orkuveita Reykjavíkur betur rækt skyldur sínar gagnvart íbúum höfuðborgarinnar og tryggt gott neysluvatn fyrir höfuðborgarbúa til langrar framtíðar.
Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að afmörkun íbúða- og frístundasvæða í deiliskipulagstillögunni sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag.
Umhverfisstofnun telur að í ljósi mikilvægis Heiðmerkur sem vatnsupptökusvæðis fyrir Reykvíkinga ætti þegar í stað að hefja vinnu við útivistunarþol Heiðmerkur. Slíkt mat sé grundvöllur frekari skipulags á svæðinu. Stofnunin minnir á að hugmyndir um frekari nýtingu Heiðmerkur til útivistunar muni að öllu óbreyttu leiða til aukinnar umferðar í Heiðmörk.