Ábyrgð okkar allra að bregðast við

Börn sem beitt eru kynferðisofbeldi sýna oft merki þess í breyttri hegðan. „Við verðum að vera stanslaust á tánum hvað þennan málaflokk varðar. Lykillinn að því að svona menn fái ekki frið er að allir séu meðvitaðir,“ segir Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur hjá Barnahúsi.

Á ári hverju koma á bilinu 250-300 mál inn á borð Barnahúss þar sem grunur leikur á um að börn séu þolendur kynferðisofbeldis. Að sögn Ólafar eru mörg málin á gráu svæði en um helmingur þeirra, eða 100-120 mál á ári, leiðir til þess að börnin sem um ræðir fá meðferð. Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar síðustu daga, um áratugalangan brotaferil Karls Vignis Þorsteinssonar, hefur starfsfólk barnahúss orðið vart við aukinn fjölda tilkynninga.

Gæti orðið til þess að fleiri drengir opnuðu sig

„Öll fagleg umfjöllun um þennan málaflokk gerir það að verkum að fleiri börn segi frá, því það eru mörg börn sem heyra af þessu og við sjáum það hjá Barnahúsi.“ Ólöf segist ekki síst vonast til þess að umfjöllun síðustu daga skili sér til drengja, þar sem margir karlmenn hafi stigið fram og sagt frá ofbeldi gegn sér. 

„Þetta gæti ýtt undir að fleiri drengir segðu frá. Það er nokkuð sem ég hef haft áhyggjur af, að miklu færri drengir segja frá. Við sjáum það með unglingsstúlkur að oft treysta þær vinkonu sinni og trúa fyrir þessu og það er vinkonan sem segir síðan frá, en strákar tala minna um líðan sína og tilfinningar. Þetta er eitt af því sem þarf að breytast í þjóðfélagsandanum, að strákum gefist tækifæri til að treysta einhverjum fyrir svona.“

Hin fullorðnu kunni að bregðast við

Auk þess að sinna börnum sem eru þolendur hefur Ólöf á vegum Barnahúss og í samvinnu við menntamálaráðuneytið staðið fyrir námskeiðum fyrir fólk sem starfar með börnum. Námskeiðin byggjast á bókinni „Verndum þau“ eftir Ólöfu, sem kom út árið 2006.

„Markmiðið með námskeiðinu er að fólk sem vinnur með börnum geti mögulega séð einhver einkenni og viti hvað það geti gert ef svona brot kemur upp. Hvernig eigi að bregðast við ef barn segir frá.“ Ólöf segir að oft komi ýmis einkenni fram sem bendi til þess að barn sé þolandi kynferðisofbeldis. Það geti verið kvíði, sjálfsskaði, vanlíðan og skyndileg hegðunarbreyting.

„Það er svo mikilvægt að fræða fólk sem vinnur með börn vegna þess að því fleiri sem þekkja til einkennanna því líklegra er að koma megi í veg fyrir að brot haldi áfram. Að ofbeldið verði ekki viðvarandi ástand án þess að samfélagið bregðist við því það er hinn fullorðni einstaklingur sem fær upplýsingarnar sem verður að bregðast rétt við.“

„Ekki til á litla Íslandi“

Í umfjöllun Kastljóssins síðustu daga hefur komið fram að þrálátur orðrómur hafi verið um hegðun Karls Vignis Þorsteinssonar gagnvart börnum um áratugaskeið. Honum hafi ítrekað verið vísað frá störfum þegar upp um hann komst, án þess að því væri fylgt frekar eftir og gat hann því haldið brotum sínum áfram annars staðar gagnvart fleiri börnum.

Ólöf segir að sem betur fer hafi margt breyst á síðustu árum. „Þetta er kerfið eins og það var á 7., 8., og 9. áratugnum, á þeim tíma þegar við hugsuðum að svona væri ekki til á litla Íslandi. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og í dag erum við komin mjög langt miðað við margar aðrar þjóðir.“

Barnahús var stofnað árið 1998 og Ólöf segir að um það leyti hafi mikil framfaraskref verið stigin. Síðan bókin „Verndum þau“ kom fyrst út árið 2006 hefur Barnahús staðið fyrir yfir 100 námskeiðum fyrir fólk í barnastarfi, s.s. hjá íþróttafélögum, skólum, félagsmiðstöðvum og skátunum. Þá sækir allt starfsfólk KFUM og K námskeiðið áður en það hefur störf.

Vantar enn meiri fræðslu

Til stendur að endurútgefa bókina innan skamms á þessu ári, m.a. vegna þess að frá árinu 2006 hafa mikilvægar lagabreytingar verið gerðar í málaflokknum. T.a.m. hafa lög um fyrningarfrest kynferðisbrota breyst, kynferðislegur lögaldur verið hækkaður samkvæmt lögum og árið 2009 voru gerðar lagabreytingar um skýrslutöku af börnum vegna kynferðisbrota.

Ólöf segir allar þessar breytingar vera af hinu góða. „Þekking okkar hefur aukist, bæði hjá kerfinu, barnaverndaryfirvöldum og almenningi. Það hefur gríðarlega mikið breyst á þessum árum, en ég myndi samt segja að það sem vanti ennþá sé meiri fræðsla og meira upplýsingastreymi til almennings.

Það þarf að halda þessu vakandi Ég vona að svona lagað geti ekki gerst óáreitt í 30, 40 eða 50 ár í dag, en maður getur aldrei verið öruggur og þess vegna skiptir meðvitund samfélagsins mestu máli þegar börn segja frá.“

Ólöf Ásta Farestveit
Ólöf Ásta Farestveit mbl.is
Karl Vignir Þorsteinsson
Karl Vignir Þorsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka