Afdráttarlaus um sannleiksgildið

Skýrsla vistheimilanefndar kynnt.
Skýrsla vistheimilanefndar kynnt. mbl.is/Golli

„Skýrslan er algerlega skýr og nefndin gekk eins langt í að álykta afdráttarlaust um sannleiksgildi þessara frásagna og mögulegt var. Við höfum upplýsingar um það að aðrir sem dvöldust þarna hafi verið mjög sáttir við umfjöllun nefndarinnar,“ segir Róbert Spanó, formaður Vistheimilanefndar um gagnrýni vistmanna á Kumbaravogi um skýrslu nefndarinnar.

Þær Erna Agnarsdóttir og María Haraldsdóttir gagnrýndu skýrslu Vistheimilanefndarinnar í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi, meðal annars á þeim forsendum að brot Karls Vignis Þorsteinssonar gegn börnum á Kumbaravogi hafi varla verið nefnd í henni. Þá eru þær ósáttar við það orðalag nefndarinnar að „meiri líkur en minni“ hafi verið á því að börnin hafi þurft að sæta kynferðisofbeldi af hálfu Karls Vignis.

Róbert segir að nefndinni hafi ekki verið ætlað að fjalla um sekt manna eða sýkn. Hún hafi ekki haft lögregluvald og hafi aðeins getað skyldað yfirmenn og starfsfólk vistheimila á fund nefndarinnar. Nefndarmönnum hafi verið kunnugt um kæru og játningu Karls Vignis hjá lögreglu árið 2007 og það komi fyrir í skýrslunni. Nefndin hafi aldrei falast eftir því að Karl Vignir kæmi fyrir hana enda hefði neitun hans aldrei geta haft áhrif á niðurstöðu hennar.

Hvað varðar athugasemdir við orðalag nefndarinnar segir Róbert að gert hafi verið grein fyrir því í bréfi árið 2009 til þeirra vistmanna sem þær gerðu. Í því sagði:

„[N]efndin [leggur] á það áherslu að ekki er rétt að álykta svo af þessari umfjöllun í áfangaskýrslu nefndarinnar að dregið svo á nokkurn hátt í efa sannleiksgildi frásagna um einstök tilvik sem lúta að þessum þætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert