Matthías Máni laus úr einangrun

mbl.is/Brynjar Gauti

Matthías Máni Erlingsson, sem strauk af Litla-Hrauni í síðasta mánuði, er laus úr einangrun í fangelsinu, en honum var gert að sæta einangrunarvist í 15 daga í tengslum við strokið. Samkvæmt upplýsingum mbl.is losnaði Matthías í gær.

„Hann var sína 15 daga eins og reglurnar segja til um þegar um strok er að ræða,“ segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns, í samtali við mbl.is.

Matthías Máni strauk úr fangelsinu 17. desember sl. og hófst umfangsmikil leit að honum í framhaldinu. Sú leit skilaði engum árangri og var það ekki fyrr en á aðfangadag sem Matthías Máni gaf sig fram á bænum Ásólfsstöðum í Þjórsárdal.

Margrét segir að rannsókn málsins sé í höndum lögreglunnar. Hún geti ekki tjáð sig um það sem snúi að sjálfu strokinu og hvað hann gerði utan veggja fangelsisins. „Agaviðurlögum vegna stroks hjá okkur er lokið; það er þessi einangrun. Þannig að hann tekur bara þátt í daglegu lífi innan fangelsisins eins og aðrir,“ segir hún.

Færri fangar fara nú út í einu á álagstíma

Matthías Máni var að fara til vinnu innan fangelsisins þegar honum tókst að strjúka. Margrét segir að þetta hafi verið á álagstíma þegar allir fara til vinnu eða í skóla og tókst Matthíasi Mána að komast út fyrir innri öryggisgirðingu fangelsins. „Því miður þá er það þannig að skynjarinn á myndavélinni - myndavélin sjálf er í lagi - en skynjarinn sem nemur hreyfingu bilar þarna um morguninn,“ segir Margrét og bætir við að upptaka fari ekki í gang nema skynjarinn nemi hreyfingu. Í framhaldinu tókst Matthíasi Mána að komast út í gegnum ytri girðinguna.

Aðspurð segir Margrét að starfsmenn Litla-Hrauns hafi farið yfir alla verkferla í kjölfar stroksins. „Auðvitað má alltaf finna einhver einföld atriði sem við getum lagað í okkar verkferlum. En fyrst og síðast þurfa þessi öryggistæki okkar að vera í lagi, þ.e. myndavélakerfið og girðingin.“

Að hennar sögn er nauðsynlegt að fjölga útiverkstjórum á álagstímum, þ.e. þegar fangar eru að fara til vinnu, í skóla eða útivist. Á tímum niðurskurðar sé það hins vegar ekki hægt. „Það sem við gerum einfaldlega til að mæta því er að við breytum aðeins tímaröðuninni þannig að það koma færri út í einu,“ segir Margrét og bætir við að þetta fyrirkomulag hafi nú þegar tekið gildi. „Svona atburðir verða til þess að við horfum mjög gagnrýnum augum á allt sem við erum að gera.“

Öryggisgirðingin stærsta vandamálið

Öryggisgirðingin er stærsta vandamál fangelsisins á Litla-Hrauni að sögn Margrétar. „Það er í raun meira mál en myndavélakerfið, því það hafa þó verið endurnýjaðar hér myndavélar og búnaður, þótt það vanti töluvert upp á að það sé fullkomið.“

Í ár, líkt og í fyrra, fær Litla-Hraun 50 milljóna króna fjárveitingu á fjárlögum. Fjárhæðin verður m.a. notuð til þess að setja upp svokallaðar „anti-climb“-girðingar, eða girðingar sem menn eiga ekki að geta klifrað yfir, í kringum útivistarsvæði. Vonir standa til að framkvæmdir geti hafist í vor.

„Þessar [girðingar] sem við erum með eiga að vera mannheldar. En það hefur náttúrlega sýnt sig, og verið bent á það í nokkur ár, að þær eru það ekki. Menn hafa komist hér yfir girðingu en náðst hinum megin við hana,“ segir Margrét og bætir við að árið 2008 hafi verið skrifuð skýrsla um málið. Það var þó ekki fyrr en á síðasta ári sem skriður komst á málið, þ.e. þegar fjárlaganefnd Alþingis ákvað að setja 50 milljónir og aftur í ár til að bæta öryggismál fangelsisins.

„Til að ljúka þessu þannig að við séum komin með sæmilega tryggt öryggi þurfum við svona 60 til 100 milljónir í viðbót,“ segir Margét og bætir við að á fjárlögum 2014 verði farið fram á það.

Nauðsynlegt að sinna viðhaldi

Margrét segir að svo virðist sem menn séu að opna augun fyrir nauðsyn þess að viðhalda fangelsisbyggingum. Það sé ekki nóg að menn tali um öryggisfangelsi heldur verði menn að horfast í augu við þá annmarka sem fyrir hendi eru varðandi öryggisútbúnað og gera úrbætur.

Margrét svarar neitandi þegar hún er spurð hvort þörf sé á atburði eins og stroki Matthíasar Mána í síðasta mánuði til að fólk átti sig á stöðu mála. „Strokið hlýtur samt að verða til þess að menn sjá alvöru málsins.“

Matthías Máni Erlingsson hefur nú lokið einangrunarsvistinni á Litla-Hrauni.
Matthías Máni Erlingsson hefur nú lokið einangrunarsvistinni á Litla-Hrauni.
Margrét Frímannsdóttir er forstöðurmaður Litla-Hrauns.
Margrét Frímannsdóttir er forstöðurmaður Litla-Hrauns. mbl.is/Golli
Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert