Litlu munaði að allt fjarskiptasamband við Vestfirði yrði óvirkt í óveðrinu sem gerði milli jóla og nýárs. Þetta kom fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem fjallað var um um afleiðingar óveðursins á Vestfjörðum.
Á fundinum var fjallað um raforku-, samgöngu- og fjarskiptaöryggi Vestfirðinga í ljósi afleiðinga óveðursins sem gekk yfir norðvestanvert landið um áramótin. Til fundarins mættu yfirmenn Vegagerðarinnar, Orkubús Vestfjarða, fjarskiptaráðs, Neyðarlínunnar og almannavarna.
Ólína Þorvarðardóttir, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sem kallaði til fundarins, segir að þetta hafi verið góður og gagnlegur fundur. „Við ræddum þessa alvarlegu stöðu sem myndaðist á Vestfjörðum um jólin þegar rafmagnsleysi olli truflun á fjarskiptum sem hafði áhrif á almenningsöryggi og almannavarnir vegna þess að þetta bættist allt ofan á fullkomið samgönguleysi vegna snjóflóðahættu sem olli einangrun byggðarlaga og varnarleysi.
Það var því hætta á ferðum og það kom raunar fram á fundinum að hættustigið var öllu meira en fólk almennt gerði sér grein fyrir, því að ekki munaði miklu að Vestfirðir yrðu algerlega fjarskipalausir um tíma.
Ég lít á það sem verkefni þessara stofnana, og með aðkomu þingsins ef á þarf að halda, að samhæfa sig í viðbrögðum og áætlunum um aðgerðir til úrbóta og forvarna. Það er ekki ólíklegt að herða þurfi á löggjöf, auka skyldur fjarskiptafyrirtækjanna varðandi eftirlit og eftirfylgni með fjarskiptaöryggi og flýta samgönguframkvæmdum,“ sagði Ólína.
Þegar rafmagn fór af þurftu fjarskiptasendar að treysta á rafgeyma og varaafl. Nokkrir sendar urðu rafmagnslausir og varaafl dugði ekki til í öllum tilvikum. Ólína segir ískyggilegt að sú staða geti skapast að heill landsfjórðungur verði nánast fjarskiptalaus á sama tíma og íbúum stafi mikil hætta af veðri og snjóflóðum.
Ólína sagði að úrbætur á þessu sviði kölluðu á mikla samvinnu stofnana. Þær þyrftu að fara yfir eftirlit með varaaflsstöðvum, staðsetningu þeirra, viðhald o.s.frv. Hún nefndi sem dæmi að færa þyrfti varaaflsstöð í Súðavík, sem er á snjóflóðahættusvæði, endurnýja þyrfti búnað í varaaflsstöðvum og byggja nýja varaaflsstöð í Bolungarvík. Eins væri hægt að auka afhendingaröryggi í dreifikerfi rafmagns ef raflínur yrðu settar í jarðgöng eins og Súðavíkurgöng og Dýrafjarðargöng.