Meirihluti skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hefur samþykkt umsögn skipulags- og byggingarsviðs um landnotkun og skipulag í Ártúnshöfða. Þar er gerð tillaga um að starfsemi Björgunar verði flutt tímabundið á þróunarland Faxaflóahafna í Sundahöfn.
Í minnisblaði sem Hrólfur Jónsson skrifstofustjóri borgarinnar og Gísli Gíslason hafnarstjóri rita segir að þeir hafi um nokkurt skeið ásamt fleirum farið yfir stöðu lóðamála í Ártúnshöfða og Sævarhöfða. Af hálfu borgarinnar og Faxaflóahafna hafi ýmsir kostir verið skoðaðir varðandi flutning iðnfyrirtækja í Ártúnshöfða yfir á önnur svæði. M.a. hafi verið að skoða að flytja starfsemi Björgunar í Álfsnes, Gufunes eða Geldinganes. Niðurstaða þeirra er að slíkt sé af ýmsum ástæðum „vart raunhæft eða ill framkvæmanlegt“. Óbreytt staða í Ártúnshöfða sé til lengri tíma ekki valkostur.
Þeir gera því tillögu um að starfsemi Björgunar verði flutt „tímabundið“ á þróunarland Faxaflóahafna í Sundahöfn utan Klepps. Þar verði einnig gert ráð fyrir bik-tönkum malbikunarstöðvarinnar Höfða.
Í minnisblaðinu segir að byggja þyrfti 100 metra langan viðlegumannvirki sem gæti verið hluti af fyrirhugaðri bakkagerð á svæðinu sem ráðgert er að fara í á árunum 2015-2018. Forsenda þess að þessi lausn verði ofan á er að samkomulag takist milli Reykjavíkurborgar og Björgunar um flutninginn. Tekið er fram að ekki sé búinn að meta kostnað borgarinnar eða fyrirtækisins af flutningnum, en fyrir liggi að kostnaður við að byggja 100 metra hafnarbakka sé um 600 milljónir.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði gagnrýna tillögu meirihluta ráðsins. Þeir segja í bókun að margsinnis hafi komið fram að framtíðarstaðsetning Björgunar ætti að vera á Álfsnesi, og borgin hafi unnið samkvæmt því árum saman. Þeir gagnrýna ennfremur að ekki liggi fyrir betri upplýsingar um kostnað við verkefnið. Bygging hafnarbakka kosti 600 milljónir og því sé líklegt að heildarkostnaður sé nálægt milljarði. „Það er mikið fé fyrir lausn sem sögð er tímabundin.“
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar bókuðu á móti að dregist hefði úr hófi að finna Björgun hf nýja staðsetningu. Sú tillaga sem hér sé unnið að verði sett í umhverfismat og deiliskipulagsgerð. Í bókuninni segir að Besti flokkurinn og Samfylkingin láti raunsæi ráð för í þessu máli sem öðrum, ekki óskhyggju. Íbúar í Bryggjuhverfi hafi beðið eftir raunhæfri lausn í tvo áratugi.