Lögreglan segir að kærur á hendur Karli Vigni Þorsteinssyni hafi borist eftir að Kastljós birti umfjöllun um brot hans á hendur ungmennum. Um var að ræða kærur vegna brota sem eru hugsanlega ófyrnd. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem lögreglan hefur sent frá sér í tengslum við rannsókn kynferðisbrota Karls Vignis.
„Vegna umfjöllunar fjölmiðla um rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á kynferðisbrotum karls á sjötugsaldri, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, er nauðsynlegt að skýra nokkur atriði um gang rannsóknarinnar.
Myndefni sem sýnir játningar áðurnefnds manns, og sýnt var í Kastljósi Sjónvarpsins fyrr í vikunni, barst lögreglu rétt fyrir jól. Myndefnið, en um var að ræða upptökur sem höfðu að geyma talsvert magn af efni, var sótt af lögreglu til RUV fimmtudaginn 20. desember. Efnið var óklippt og tók nokkurn tíma að yfirfara það allt, en það var að mestu gert á milli jóla og nýárs.
Gögnin, en ætla má að upptökurnar hafi verið nokkurra vikna gamlar þegar þær bárust lögreglu, voru um margt óljós um hvað var verið að játa, á hvaða tíma brot voru framin og gegn hverjum sem og að hve miklu leyti um var að ræða brot sem maðurinn hafði þegar verið sakfelldur fyrir.
Lögreglan þurfti því að fara vandlega yfir málið, m.a. með tilliti til þess hvort brot voru fyrnd og undirbúa sínar aðgerðir. Þeirri vinnu var ekki lokið þegar umfjöllun um málið hófst á opinberum vettvangi.
Eftir sýningu áðurnefnds sjónvarpsþáttar bárust lögreglu hins vegar nýjar upplýsingar sem kölluðu á skjót viðbrögð lögreglu. Um var að ræða kærur vegna brota sem eru hugsanlega ófyrnd. Á grundvelli þessara nýju upplýsinga og kæra var umræddur maður úrskurðaður í gæsluvarðhaldi líkt og áður sagði,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.