Lögreglu haldið upplýstri um málið

„Skilja má á yfirlýsingu lögreglu að óljóst sé hvenær upptökurnar voru gerðar. Vegna þessa er rétt að taka fram að á upptökunum er nákvæmur kóði sem sýnir dagsetningu og tíma,“ segir í yfirlýsingu frá ritstjórn Kastljóssins vegna fréttatilkynningar sem barst frá lögreglunni í morgun.

Fram kemur í yfirlýsingunni að ritstjórnin hefði gert lögreglunni viðvart að á upptökum Katstjóss sem gerðar voru í nóvember og desember væri að finna játningar Kals Vignis Þorsteinssonar á nýlegum kynferðisbrotum auk eldri brota. Þá hefði lögreglu einnig verið tilkynnt að skömmu eftir áramót að til stæði að sýna þátt um málið í byrjun vikunnar.

Yfirlýsing ritstjórnar Kastljóssins:

„Vegna fréttatilkynningar lögreglu frá því í morgun vill ritstjórn Kastljóss taka fram að umsjónarmenn þáttarins tilkynntu yfirmanni kynferðisbrotadeildar um upptökur Kastljóss og efni þeirra 14. desember sl. Strax þá var lögreglu gerð grein fyrir því að þar væri að finna játningar Karls Vignis á nýlegum kynferðisbrotum auk játninga hans á eldri brotum gegn á þriðja tug barna á 50 ára tímabili. Meðal annars gegn nafngreindum einstaklingum. Þá þegar bauðst lögreglu að skoða efnið. 

Efnið sem Kastljós afhenti lögreglu var tekið upp í tvennu lagi: Annars vegar 29. nóvember, þar sem Karl Vignir ræðir eingöngu um eldri brot sín. Hins vegar 12. desember, þar sem Karl er spurður mun ítarlegar út í brotaferil sinn auk þess sem hann gengst við því að hafa brotið af sér eftir árið 2007. Í seinni upptökunni fékkst því mun gleggri mynd af brotum sem hann hafði ekki áður játað. Strax og umsjónarmenn Kastljóss höfðu farið yfir efnið var lögreglu því gert viðvart.

Skilja má á yfirlýsingu lögreglu að óljóst sé hvenær upptökurnar voru gerðar. Vegna þessa er rétt að taka fram að á upptökunum er nákvæmur kóði sem sýnir dagsetningu og tíma. Lögreglunni var auk þess tilkynnt um það nú stuttu eftir áramót, að Kastljós hygðist senda umræddan þátt út nú í byrjun vikunnar.

Kastljós vill einnig taka fram að eftir sýningu þáttarins á mánudag hefur Kastljós fengið nokkrar ábendingar um nýrri brot Karls Vignis.  Kastljós hefur bent þeim einstaklingum á að hafa samband við lögreglu. Í sumum tilfellum treystu fórnarlömbin sér ekki til þess og óskuðu eftir trúnaði, sem Kastljós virðir að sjálfsögðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka