Rætt við þolendur Karls Vignis

mbl.is/Eggert

Yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að skýrslustökur yfir fólki sem sakar Karl Vigni Þorsteinsson um kynferðisbrot standi nú yfir. Allt frá því að umfjöllun Kastljóss um Karl Vigni hófst sl. mánudagskvöld hafi fólk gefið sig í fram við lögreglu vegna málsins.

„Strax eftir að þættinum lauk þá gaf sig fólk fram og hafði samband,“ segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar, í samtali við mbl.is. Hann vill ekki gefa upp um hversu marga sé að ræða.

Karl Vignir var í gær úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en hann sakaður um að hafa beitt börn kynferðisofbeldi áratugum saman.

Spurður hvort einhverjar aðrar ástæður liggi þarna að baki, t.a.m. hvort verið sé að verja Karl Vigni gagnvart öðru fólki, segir Björgvin: „Þetta er vegna rannsóknar á málum sem koma upp í tengslum við rannsóknina. Þetta er bara rannsóknargæsla. Þetta er ekki til þess að verja hann.“ Í gær var greint frá því að nágrannar Karls Vignis hefðu orðið varir við einhvern mannsöfnuð í garðinum við húsið í fyrrinótt.

Björgvin segir að lögreglan sé nú að rannsaka nokkur mál sem komu upp í kjölfar umfjöllunar Kastljóss. „Það eru vísbendingar um að þau séu ekki fyrnd.“

Hann segir að skýrslutökur á meintum þolendum standi yfir í dag. Skýrslutökur yfir Karli Vigni stóðu yfir í gær en hann hefur ekki verið yfirheyrður í dag.

Spurður hvers vegna lögreglan brást ekki strax við eftir að hafa fengið í hendur upptökur frá Ernu Agnarsdóttur og Maríu Haraldsdóttur sem heimsóttu Karl Vigni til að fá hann til að viðurkenna brot sín, segir Björgvin að von sé á fréttatilkynningu frá lögreglunni þar sem málið er útskýrt.

Karl Vignir Þorsteinsson. Um er að ræða skjáskot úr Kastljósi.
Karl Vignir Þorsteinsson. Um er að ræða skjáskot úr Kastljósi. Skjáskot/Kastljós
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka