Segja Inga ýta undir andúð

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Árvakur/Brynjar Gauti

Skrif frétta­stjóra DV fela al­mennt ekki í sér mál­efna­lega eða upp­lýs­andi um­fjöll­un, held­ur bera þau rík­an keim af hat­ursáróðri í garð til­tek­inna ein­stak­linga. Þetta seg­ir í stefnu Ágústs og Lýðs Guðmunds­sona á hend­ur Inga Frey Vil­hjálms­syni.

Ágúst og Lýður stefna Inga fyr­ir ærumeiðandi skrif í leiðara DV sem birt­ist í DV 24. októ­ber. Gerð er sú krafa að fern til­tek­in um­mæli verði dæmd dauð og ómerk og Ingi Freyr greiði bræðrun­um 800 þúsund krón­ur til að kosta birt­ingu dóms í mál­inu. Þeir krefjast hins veg­ar ekki miska­bóta vegna skrif­anna.

Leiðar­inn var skrifaður und­ir fyr­ir­sögn­inni „Rétt­læti er ekki til“. Þau um­mæli sem bræðurn­ir krefjast að verði dæmd dauð og ómerk eru eft­ir­far­andi:

  • Þetta voru pen­ing­ar sem þeir höfðu tekið í arð út úr ís­lensk­um hluta­fé­lög­um sín­um á ár­un­um fyr­ir hrunið.
  • Bakka­bræður halda því hins veg­ar arðgreiðslum upp á millj­arða sem þeir tóku út úr eign­ar­halds­fé­lag­inu sem þarf að af­skrifa 22 millj­arða hjá.
  • Arðgreiðslurn­ar byggðu því á blekk­ing­um.
  • Þau upp­kaup kunna að vera fjár­mögnuð með arðgreiðslum sem þeir tóku út úr ís­lenska hag­kerf­inu á ár­un­um fyr­ir hrunið.

Aðdrótt­un um refsi­verða hátt­semi

Ágúst og Lýður gera kröfu um að um­mæl­in verði ómerkt í heild sinni. Þau verði að skoða heild­stætt og í tengsl­um við efni leiðarans. „Í um­mæl­un­um er stefn­end­um borið á brýn að hafa með blekk­ing­um tekið sér arð úr hér­lend­um hluta­fé­lög­um og flutt hann úr landi. Í þessu felst aðdrótt­un af hálfu stefnda, Inga Freys, um refsi­verða hátt­semi stefn­enda; hátt­semi sem félli und­ir ákvæði 26. kafla al­mennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/​1940 og refsi­á­kvæði laga um hluta­fé­lög, ef sönn væri.“

Þá er á það bent að Ágúst og Lýður gætu ekki hafa tekið sér arð út úr hluta­fé­lög­um held­ur þurfi hlut­hafa­fund­ur að fjalla um form­leg­ar til­lög­ur um greiðslu arðs og samþykkja fjár­hæð hans eða hundraðshluta. Ekki megi greiða hlut­höf­um arð fyrr en samþykkt hlut­hafa­fund­ar ligg­ur fyr­ir.

„Til­vitnuð skrif stefnda, Inga Freys, birt­ust í DV og á dv.is. Þau eru ósönn og fela í sér grófa aðdrótt­un, sem bor­in var út op­in­ber­lega og gegn betri vit­und. Um­mæl­in eru til þess fall­in að vera virðingu stefn­enda til hnekk­is, móðgandi og fela í sér aðdrótt­un í garð stefn­enda og fara því í bága við 234., 235. og 236. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/​1940.“

Hat­ursáróður bannaður í fjöl­miðlum

Þá seg­ir að leiðara­skrif Inga Freyr séu ekki til að styðja við eða stuðla að upp­lýstri og mál­efna­legri umræðu, held­ur til þess fall­in að meiða æru Ágústs og Lýðs með aðdrótt­un­um um ólög­mæta og refsi­verða hátt­semi „og kynda und­ir andúð á þeim í ís­lensku sam­fé­lagi.“

Enn­frem­ur seg­ir að tján­ing­ar­frelsi Inga Freys sé ekki skert ef um­mæl­in eru dæmd dauð og ómerk. „Inga Frey er frjálst að fjalla um fjár­mál og viðskipti stefn­enda hér á landi og er­lend­is sé það gert í sam­ræmi við þær siðaregl­ur sem blaðamenn hafa sett sér og miða að því gætt sé hlut­lægni og reynt að tryggja upp­lýsta og vit­ræna umræðu um mál­efni líðandi stund­ar.“

Í stefn­unni seg­ir að skrif Inga Freys beri rík­an keim af hat­ursáróðri en hat­ursáróður sé bannaður í fjöl­miðlum, sbr. 27. grein laga um fjöl­miðla. Hún hljóðar svo: „Bannað er að kynda und­ir hatri í fjöl­miðlum á grund­velli kynþátt­ar, kyn­ferðis, kyn­hneigðar, trú­ar­skoðana, þjóðern­is, skoðana eða menn­ing­ar­legr­ar, efna­hags­legr­ar, fé­lags­legr­ar eða annarr­ar stöðu í sam­fé­lag­inu.“

Málið verður þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur 17. janú­ar næst­kom­andi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka