„Þetta er svartur blettur á samfélaginu“

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra. Ómar Óskarsson

Forsætisráðherra kallaði í gær saman hóp fagfólks úr, innanríkis- velferðar - og forsætisráðuneytum til að fara yfir mál tengd Karli Vigni Þorsteinssyni, sem hefur verið umfjöllunarefni Kastljóss undanfarna daga vegna barnaníðs. „Þetta er svartur blettur á samfélaginu, þetta á ekki að geta viðgengist,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

„Við erum að velta fyrir okkur mörgum spurningum; hvernig gat þetta gerst, hvað í umhverfinu veldur því að það var ekki gripið fyrr inn í og í framhaldinu viljum við skoða hvaða leiðir séu til úrbóta. Þessi hópur mun síðan skila minnisblaði og hugmyndum og unnið verður með það áfram,“ segir Guðbjartur.

Hann segir enn ekki komin nein tímamörk á störf hópsins. „Þetta er ekkert sem gerist á einum degi, en það er ljóst að við verðum að vinna hratt. En sumt gæti kallað á breytingar á lögum eða reglugerðum ef fram koma ábendingar um að taka þurfi öðruvísi á tilkynningum og slíku.“

Spurning um að kalla víðar eftir sakavottorði

Guðbjartur segir að eitt af því sem verði skoðað sé starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka. „Viðkomandi maður starfaði mikið hjá sjálfstæðum stofnunum, kirkjufélögum og öðru slíku. Það hafa verið sett lög á Íslandi um að það má kalla eftir sakavottorði starfsfólks í leik- og grunnskólum, þótt það geti auðvitað aldrei tryggt neitt. Spurningin er hvort það ætti að gera víðar.“

Guðbjartur segir að þó að ýmislegt hafi verið gert í þessum málaflokki, þá dugi það augljóslega ekki til. „Það er búið að afnema fyrningarfrestinn á þessum kærum í dag, sem Ágúst Ólafur [Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar] átti frumkvæðið að á sínum tíma. Það er búið að gera ýmislegt, en það dugir greinilega ekki til. Núna þurfum við að skoða samfélagið í heild og það er okkar ætlunarverk.“

„Mér finnst þetta svo hræðilegt“

Guðbjartur segist hafa fylgst með umfjöllun Kastljóss um málið og segist miður sín. „Mér finnst þetta svo hræðilegt, það er ekkert hægt að orða þetta öðruvísi. Þetta er svartur blettur á samfélaginu, þetta á ekki að geta viðgengist. Það eru allir sammála um að við verðum að gera betur. Fundurinn í gær er fyrsta skrefið í þá átt. Síðan verðum við að meta framhaldið og búa til þannig umhverfi að líkurnar minnki, helst að við getum hindrað þetta.“

Karl Vignir Þorsteinsson. Skjáskot úr Kastljósi.
Karl Vignir Þorsteinsson. Skjáskot úr Kastljósi. Skjáskot/Kastljós
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka