Fengu alls tæp 10 ár fyrir nauðgun

Nauðgun er glæpur
Nauðgun er glæpur mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Tveir karlmenn voru í morgun dæmdir í fimm ára og 4 ára og 6 mánaða fangelsisrefsingar fyrir nauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Voru mennirnir, þeir Stefán Logi Sívarsson og Þorsteinn Birgisson, dæmdir fyrir að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. nóvember 2011 með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað átján ára gamalli stúlku til samræðis og annarra kynferðismaka, en þeir héldu í hendur hennar og nýttu sér yfirburði sína vegna aðstöðu- og aflsmunar.

Í ákæru kemur fram að Stefán afklæddi stúlkuna og þröngvaði henni til samræðis og síðan skiptust þeir Þorsteinn á að þröngva henni til munnmaka við hvorn um sig á meðan hinn hafði við hana samræði.

Bæði Stefán og Þorsteinn neita að hafa nauðgað stúlkunni. Þeir viðurkenndu að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkuna en sögðu báðir að hún hefði viljað þetta. Þeir neituðu að hafa beitt stúlkuna ofbeldi eða ólögmætri nauðung eins og þeir voru ákærðir fyrir.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að framburður tvímenninganna hafi verið um margt misvísandi  og ótrúverðugur. Skýrslur bera með sér að þeir hafi leitast við að samræma framburð sinn.

Þá bera vitni að stúlkan hafi verið illa á sig komin, í miklu uppnámi og grátandi eftir atburðinn. Miðað við aðdraganda þess að mennirnir höfðu kynferðismök við stúlkuna og ástand hennar á eftir, þykir ótrúverðugur framburður mannanna um að hún hafi verið þeim samþykk. Er jafnframt til þess að líta sem kom fram í vottorði og vitnisburði sálfræðings að af viðtölum við stúlkuna verði ráðið að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi við atburðinn. 

Framburður stúlkunnar er trúverðugur að mati dómsins. Hefur framburður hennar verið á einn veg um þau atriði sem skipta máli og fær jafnframt stoð í framburði vitna og gögnum málsin.

Stefán Logi er fæddur árið 1981. Hann á sér allnokkurn sakaferil, allt aftur til ársins 1998. Þorsteinn er fæddur árið 1988. Hann hefur einnig ítrekað verið dæmdur eða hlotið sektir fyrir brot á lögum frá árinu 2005.

mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert