Kristján Friðbergsson, fyrrverandi forstöðumaður heimilisins á Kumbaravogi, segir að fullyrðingar um að hann hafi vitað af kynferðislegum tilhneigingum Karls Vignis áður en hann heimsótti Kumbaravogsheimilið, og jafnvel stuðlað að athæfi hans með óbeinum eða beinum hætti, eru ærumeiðandi ósannindi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Kristjáni vegna umræðu Kastljóss.
„Ég harma mjög að Karl Vignir Þorsteinsson hafi sem gestkomandi einstaklingur á Kumbaravogsheimilinu sem ég veitti forstöðu brugðist trausti mínu og áreitt og misnotað sum af þeim börnum sem voru í umsjá minni. Fullyrðingar um að ég hafi vitað af kynferðislegum tilhneigingum Karls Vignis áður en hann heimsótti Kumbaravogsheimilið, og jafnvel stuðlað að athæfi hans með óbeinum eða beinum hætti, eru ærumeiðandi ósannindi.
Eftir að fjölmiðlaumræður um Kumbaravogsheimilið fóru af stað árið 2007 fagnaði ég því að Alþingi skipaði óháða nefnd sem kannaði framkomnar ásakanir. Vistheimilanefndin tók skýrslur af tólf einstaklingum sem ólust upp á heimilinu á árunum 1965-1985, auk viðtala við fyrrverandi starfsmenn og aðra sem þekktu til starfsemi heimilisins.
Nefndin skilaði niðurstöðum sínum í september 2009. Þar kemur m.a. fram að fjórir einstaklingar sem voru ósáttir við veru sína á Kumbaravogi hafi greint „nefndinni frá því að hafa annaðhvort þurft að sæta kynferðislegu ofbeldi af hálfu gestkomandi manns á heimilinu eða hafa haft vitneskju um að það væri að eiga sér stað“. Þar kemur einnig fram að fjórir af þeim einstaklingum sem voru mjög ánægðir með uppeldið sem þeir fengu á Kumbaravogi hafi upplýst að sami einstaklingur „hafi einnig beitt þá fjóra kynferðislegu ofbeldi eða gert tilraun til þess“.
Síðan segir: „Greindi hluti einstaklinganna frá því að einhver úr hópi vistmanna hafi skýrt forstöðuhjónum vistheimilisins frá því hvað væri að eiga sér stað og þegar í kjölfarið hafi þau brugðist við með þeim hætti að reka manninn á dyr og minntist enginn þess að maðurinn hafi nokkurn tímann eftir það komið á vistheimilið fyrir utan einn einstakling úr hópi þeirra sem greindu á neikvæðan hátt frá dvöl sinni.“
Eins og sjá má eiga fullyrðingar sem birst hafa í Kastljósi undanfarna daga um að vistheimilanefndin hafi varla nefnt þennan þátt málsins í skýrslunni ekki við rök að styðjast. Fósturbörn mín lýstu þessum þætti rækilega fyrir nefndinni, bæði þau sem voru neikvæð og hin sem voru jákvæð í minn garð (sjá bls. 267-270).
Einnig kemur fram að þau hafi öll, með einni undantekningu, staðfest að viðkomandi einstaklingur hafi aldrei stigið fæti aftur inn á heimilið eftir að athæfi hans komst í hámæli. Nefndin tekur líka fram að frásögn þessa eina vistmanns eigi „sér ekki stoð í frásögnum annarra, hvorki fyrrverandi vistmanna heimilisins né starfsmanna“.
Ég hvet þá sem vilja mynda sér skoðun um þetta mál að kynna sér skýrslu vistheimilanefndar þar sem sjónarmið flestra fósturbarna minna koma fram,“ segir í yfirlýsingu frá Kristjáni.