Reykvíkingar sýndu mikla framsýni þegar ákveðið var að framtíðarvatnsból höfuðborgarbúa yrði í Heiðmörk. Það er hins vegar óskynsamlegt að vera með mikla starfsemi ofan við vatnsbólin, t.d. á Bláfjallasvæðinu. Þetta segir Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitunnar.
Strangar reglur gilda um vatnsverndarsvæði. Á svokölluðum grannsvæðum má ekki leyfa nýjar byggingar, s.s. sumarbústaði. Bannað er að geyma þar hættuleg efni og vegalagning, áburðarnotkun og önnur starfsemi á svæðinu lýtur ströngu eftirliti. Reglurnar eru ekki eins strangar um svokölluð fjarsvæði, en heilbrigðisnefndir hafa sett reglur um starfsemi á þeim.
Í ágúst 2012 var áhættumat fyrir vatnsveituna í Heiðmörk endurskoðað af utanaðkomandi ráðgjöfum og helstu sérfræðingum Orkuveitunnar í vatnsveitum. Helstu áhættuþáttum var gefin einkunn frá 1-10, þar sem 10 þýddi mjög mikla áhættu. Helstu áhættuþættir voru taldir umferð (fékk einkunnina 8), útivist, þ.e. vegna hesta, göngufólks og lausra dýra (7), efnamengun, þ.e. efnaflutningar, efnanotkun, stóriðja, skógrækt og snjóbræðsla (7) og einnig var talin stafa hætta af meindýrum (7).
Orkuveitan telur brýnt að takmarka bílaumferð í Heiðmörk. Fyrirtækið vill einnig beina umferð hestamanna út fyrir grannsvæðin vegna hestaskíts sem óhjákvæmilega fylgir reiðtúrum í Heiðmörk. Hestamenn hafa gefið út kort um reiðvegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en þetta kort hefur aldrei verið samþykkt af skipulagsyfirvöldum á höfuðborgarsvæðinu.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur furðað sig á því að skógrækt sé metin sem áhættuþáttur varðandi vatnsvernd. Félagið segir að rannsóknir vísindamanna hafi sýnt fram á að skógrækt dragi úr hættu á efnamengun vatns. Skógur hægi á yfirborðsflæði vatns, dragi úr flóðahættu og miðli hreinu vatni til vatnsbóla.
Hólmfríður segir alveg rétt að skógrækt bindi jarðveg og bæti þannig vatnsgæði. Hún hefur hins vegar efasemdir um að rétt sé að auka skógrækt á vatnsverndarsvæði. Öll áburðargjöf sé óæskileg nærri vatnsbólum. Hún telur því rétt að leyfa skóginum í Heiðmörk að vaxa og dreifa úr sér án þess að verið sé að planta þar nýjum tjáplöntum.
Þeir sem áhyggjur hafa af vatnsvernd á Heiðmerkursvæðinu horfa einnig til starfsemi sem er í jaðri vatnsverndarsvæðisins. Hólmfríður segir að ef menn væru að leita að skíðasvæði fyrir höfuðborgarsvæðið í dag þá myndu menn tæplega velja Bláfjöll. Það sé mengunarhætta af umferð um Bláfjallaveg og starfsemin í Bláfjöllum feli í sér álag á umhverfi. Hólmfríður tekur fram að menn viti ekki nægilega mikið um grunnvatnsrennsli af Bláfjallasvæðinu og nauðsynlegt sé að bæta þar úr með frekari rannsóknum.
Á síðasta ári var samþykkt að heimila móttöku á jarðefnum til landmótunar í Bolaöldum í hlíðum Vífilsfells. Unnið var umhverfismat vegna framkvæmdarinnar. Í Bolaöldum er gamlar jarðvegsnámur sem eru áberandi sár í landslaginu. Með því að sturta þar jarðefnum sem verktakar þurfa að losna við af höfuðborgarsvæðinu er því verið að lagfæra þetta sár, en jarðvegi er mokað jafn óðum yfir þau jarðefni sem flutt eru á svæðið.
Í áliti Skipulagsstofnunar segir að í námunum sé búið að fjarlægja jarðveg ofan af berggrunninum og því eigi spilliefni greiðari leið niður í grunnvatnið en ella. Í umsögn Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðisins er bent á nálægð efnistökusvæðisins við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og að líkur séu á að stór mengunaróhöpp þar geti haft áhrif á gæði grunnvatns innan vatnsverndarsvæðisins. Skipulagsstofnun taldi að ef staðið verði að málum eins og kveðið er á um í matsáætlun, varðandi umgengni og geymslu mengandi efna, viðhaldi vinnuvéla og lekavörnum og notkunar viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegra mengunaróhappa, sé ekki líklegt að fyrirhuguð starfsemi hafi neikvæð áhrif á gæði grunnvatns.
Bolaöldum er eingöngu heimilt að losa endurnýtanlegt, óvirkt jarðefni s.s. mold, möl og grjót eins og kemur fram í frétt frá Reykjavíkurborg. Einnig má losa steinsteypubrot sem búið er að klippa af öll útistandandi járn og hreinsa af öðrum efnum s.s. einangrun, pappa og klæðningu. Ekki er heimilt að losa lífrænan úrgang eins og húsdýraskít eða heyrúllur.
Bolaöldur ehf. taldi ekki eðlilegt að félagið yrði gert ábyrgt fyrir því að vakta gæði grunnvatnsins á svæðinu. Skipulagsstofnun féllst á þetta og lagði þá skyldu á hendur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, í samráði við framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu, að gera tillögu að vöktunaráætlun sem geri grein fyrir ábyrgð einstakra rekstraraðila í nágrenni vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins.
Skipulagsstofnun benti á að í nágrenni efnistökusvæðisins sé margvísleg starfsemi sem geti mengað grunnvatn, s.s. flugvöllur á Sandskeiði, mótorhjólabraut og bensínstöð við Litlu kaffistofuna auk mikillar umferðar eftir Suðurlandsvegi.
Athygli vekur að Orkuveita Reykjavíkur veitti enga umsögn um þetta mál þrátt fyrir að í því hafi m.a. verið tekist á um áhrif framkvæmda á vatnsvernd.