Stífir fundir um vanda Eirar

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi á í verulegum fjárhagserfiðleikum.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi á í verulegum fjárhagserfiðleikum. Morgunblaðið/Ómar

Stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar hefur kynnt fyrir hagsmunaaðilum yfirlit og aðgerðaáætlun varðandi fjárhagsstöðu félagsins. Enn er þó margt óljóst hvernig fjárhagur heimilisins verður tryggður til framtíðar. Niðurstöðu er að vænta í febrúar eða mars.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar, segir að það sé búið að vinna mikla vinnu síðustu vikur og mánuði. Stjórn félagsins, sem kosin var fyrir réttum mánuði, hafi átt marga fundum málið. Hann segir að menn séu búnir að stilla upp yfirliti yfir stöðuna og vinna aðgerðaráætlun, en það sé ekki búið að klára neitt fyrr en samkomulag hafi fengist um heildarlausn.

„Það er engin ástæða til að ætla núna annað en að þetta geti gengið upp þannig að allir geti þokkalega við það unað. En það verða allir að fá tíma og tækifæri til að meta sína hagsmuni og taka afstöðu,“ segir Jón.

Jón segir að stjórnendur Eirar hafi rætt við ráðuneytið, Ríkisendurskoðun og lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð sem eru lánadrottnar Eirar.

Stefán Árni Auðólfsson, lögmaður íbúa í öryggisíbúðum Eirar, segir að íbúar séu enn í óvissu um stöðu sína. Það liggi fyrir tillögur um lausn, en það vanti enn „bakbeinið“ í þær vegna þess að afstaða lánardrottna liggi ekki fyrir. Stefán segir að tillögurnar gerir ráð fyrir að íbúar geti áfram verið í íbúðunum og notið þjónustunnar. Varðandi uppgjör vegna íbúaréttar þá sé óljóst hvort hann verður greiddur 100% til baka þegar íbúar fara úr íbúðunum, með einhverjum afföllum eða með skuldabréfi. Þetta skýrist ekki fyrr en búið er að vinna meira í málinu og afstaða hagsmunaaðila liggi betur fyrir. Hann á von á að niðurstaða liggi fyrir eftir átta vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert