Viðræður hafa átt sér stað milli Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur um að borgin kaupi Elliðavatnsbæinn og um 200 hektara lands við Elliðavatn. Viðræðurnar eru liður í því að rétta við fjárhag Orkuveitunnar.
Í janúar 2011 setti Orkuveitan saman lista yfir eignir sem fyrirtækið ákvað að auglýsa til sölu. Á listanum var m.a. Perlan og Elliðavatnsbærinn. Borgarráð samþykkti í desember að kaupa Perluna á 950 milljónir, en áformað er að leigja húsið fyrir náttúruminjasýningu.
Kaup á jörðinni Elliðavatni hafa verið til skoðunar hjá borginni. Hugmyndir hafa verið, annars vegar um að borgin keypti bæinn og litla lóð við hann, en hins vegar hefur einnig verið til skoðunar að borgin keypti um 200 hektara land vestan við brunnsvæðin í Heiðmörk. Rauðhólar eru m.a. inni á þessu landi.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að ávinningur Reykjavíkurborgar af því að eignast þetta land sé m.a. að þetta sé það svæði í Heiðmörk sem helst komi til greina sem útivistarsvæði til framtíðar. Þó að landið sé á vatnsverndarsvæði sé það neðan við brunnsvæðin og því betur fallið til útivistar en svæði ofan við brunnsvæðin.
Eiríkur segir að í tengslum við þjónustusamning sem gerður var milli borgarinnar, Orkuveitunnar og Skógræktarfélags Reykjavíkurborgar í byrjun janúar hafi sala á landinu verið rædd frekar. Ekki sé komin niðurstaða í málið.
Eiríkur vill ekki ræða um hvaða upphæðir er verið að fjalla um í þessu sambandi, en bendir á að það ráðist m.a. af því hversu mikið land verði selt.
Land í nágrenni við Reykjavík er verðmætt, en hafa þarf í huga að aldrei verður heimilað að nýta land í Heiðmörk sem byggingarland.
Inni á þessu landi sem um ræðir eru um 20 sumarhús sem Orkuveitan vill að verði fjarlægð vegna vatnsverndarsjónarmiða. Leigusamningar runnu út um áramót og hefur Orkuveitan ákveðið að þeir verði ekki framlengdir. Eiríkur segir þegar hann er spurður hvað verði um sumarhúsin ef jörðin verði seld, að leigusamningarnir hafi runnið út og ekki standi til að endurnýja þá og það standi.
Elliðavatnsjörðin komst árið 1860 í eigu Benedikt Sveinssonar, alþingismanns og yfirdómara í Landsyfirrétti. Hann flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir og þar fæddist þjóðskáldið Einar Benediksson árið 1864.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti.
Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins og félagsstarfsemi ýmiss konar.
Árið 2004 rann jörðin inn í Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt heimildum mbl.is var jörðin þá metin á 1,2 milljarða króna. Ekki mun þó vera rætt um að borgin greiði núna svo hátt verð fyrir jörðina, þ.e.a.s. ef af sölunni verður.