Heimild til að halda níðingum ótímabundið eftir afplánun

Bryndís Helgadóttir, Halla Gunnarsdóttir, Svala Ísfeld Ólafsdóttir og Stefán Eiríksson …
Bryndís Helgadóttir, Halla Gunnarsdóttir, Svala Ísfeld Ólafsdóttir og Stefán Eiríksson á fundinum í morgun. Styrmir Kári

Frumvarp innanríkisráðherra sem lagt var fyrir Alþingi í nóvember felur í sér heimild til ýmissa öryggisráðstafana, meðal annars að hægt verði að halda brotamönnum í gæslu eftir afplánun teljist þeir hættulegir umhverfi sínu. Ríkissaksóknari fór fram fram á það fyrir nokkrum árum að slíkt yrði gert í tilviki dæmds barnaníðings, því var þá hafnað.

Þetta kom fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingi í morgun þegar rætt var um kynferðisbrot gegn börnum. Bryndís Helgadóttir skrifstofustjóri og Halla Gunnarsdóttir aðstoðarmaður ráðhera gerðu þar meðal annars grein fyrir tveimur frumvörpum ráðherra sem varða brot gegn börnum.

Í öðru þeirra, sem bíður fyrstu umræðu á Alþingi, er ofangreinda heimild að finna. Bryndís segir að lagt sé til að þremur mánuðum fyrir lok afplánunar geti ríkissaksóknari lagt fram kröfu um öryggisráðstafanir telji hann viðkomandi hættulegan umhverfi sínu. Umrætt ákvæði geti átt við um menn sem brotið hafa gegn börnum talið er að þeir muni ekki láta af brotunum.

Í frumvarpinu segir orðrétt: „Sé maður dæmdur í fangelsi fyrir manndráp, stórfellda líkamsárás eða annað gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot, eða tilraun til slíkra brota, og dómur telur verulegar líkur á því í ljósi sakaferils og andlegs ástands hans við lok afplánunar, svo og af undanfarandi breytni hans, að hann muni drýgja ofbeldis- eða kynferðisbrot þegar afplánun lýkur og sé því hættulegur umhverfi sínu má dómari ákveða í sérstöku máli, sem höfðað er að tilhlutan ákæruvaldsins eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok afplánunar enda komi reynslulausn ekki til greina, að beitt skuli öryggisráðstöfunum [...] að lokinni afplánun. Heimilt er að ákveða að vistun manns fari fram í fangelsi, enda verði sú ráðstöfun ekki talin andstæð hagsmunum hans.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir svo: „Sem dæmi má nefna að þegar maður hefur verið dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn börnum, og verulegar líkur eru taldar á því að hann muni fremja slík brot að nýju að lokinni afplánun, kæmi til greina að mæla fyrir um rafrænt eftirlit í því formi að á honum sé jafnan tæknilegur búnaður svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Samhliða því sé mælt fyrir um bann við því að hann komi nálægt þeim stöðum þar sem börn eða hópur barna er til staðar, t.d. við leik- eða grunnskóla.

Vildu halda Ágúst Magnússon ótímabundið

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari greindi frá því að fyrir nokkrum árum þótti einsýnt að barnaníðingurinn Ágúst Magnússon myndi brjóta af sér aftur, og eftir afplánun. Hann væri hættulegur og mynda ekki láta af ofbeldi gegn börnum. Þá hafi verið farið fram á að hann yrði vistaður ótímabundið. Dómari féllst ekki á það. Taka ber fram að Sigríður nefndi ekki nafn Ágústs en af orðum hennar að dæma var augljóst við hvern var átt.

Dómari í málinu taldi að Ágúst ætti að fá sálfræðimeðferð í fangelsinu og varð það úr. Ágúst vann með sálfræðingi og þótti gera það af heilindum. Hins vegar hafi svo komið fram vísbendingar um að það hafi ekki virkað á meðan hann var á reynslulausn. 

Í því máli var ákveðið að það væri betra að Ágúst fengi reynslulausn til þess að hægt væri að hafa eftirlit með honum og fylgjast með því hvort meðferðin hefði borið árangur. Hefði hann ekki fengið reynslulausn, lokið afplánum og verið frjáls ferða sinna hefði engin leið verið til að fylgjast með honum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert