Ný tegund barnaníðinga

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Styrmir Kári

Barnaníðingarnir tveir sem verið hafa til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu eru af tegund sem er í útrýmingarhættu. Nútíma barnaníðingar vinna í gegnum netið. Þetta sagði Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun.

Bragi sagði umræðuna ekki skynsamlega, hún sé full af hatri og refsigleði. Á sama tíma er litið framhjá því að brotin eru margra áratuga gömul. Umræðan á þá leið að loka eigi þessa menn inni ævilangt sé ekki gagnleg og sé til þess [fallin] að koma í veg fyrir að ný mál, brot sem framin eru í dag, komi upp á yfirborðið.

Í dag sé brotavettvangurinn á netinu. Afköst þeirra sem hafa áhuga á því að beita börn ofbeldi hafa aukist og aðeins sárafá mál komi upp á stofnunum. „Ef við lítum á síðastliðinn áratug þá hefur málastokkurinn nánast þrefaldast, ákærur ríkissaksóknara hafa þrefaldast og dómar hafa tvöfaldast. það ber vott um heilbrigði í þessu kerfi. Ég er ekki að segja að allt sé í lagi, það eru gloppur í kerfinu en við skulum einskorða umræðuna við það sem við getum gert betur.“

Bragi segir íslenska kerfið mjög gott til að glíma við kynferðisbrot gegn börnum. „Við erum að rannsaka fleiri kynferðisbrot gegn börnum en í nokkru öðru landi í heiminum. Við fáum fleiri tilkynningar á þessu sviði en á öllum öðrum Norðurlöndum, margfalt fleiri. [...] Við höfum náð stórkostlegum árangri í meðferð þessar mála. Flest ríki Evrópu líta til okkar sem fyrirmyndarríkis í þessum málum.“

Lögregla verði með virkar tálbeitur

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, talaði einnig um breytta veröld í kynferðisbrotum gegn börnum. „Það sem ég hef sett fram er að velta þurfi upp hvort lögregla eigi að fá heimild til að hafa á sínum snærum virkar tálbeitur. Að lögregla búi til persónur á netinu með svipuðum hætti og fjölmiðlar hafa gert, kanni hvort einhverjir séu þarna úti sem eru tilbúnir að stíga fram og fylgja því eftir með rannsókn.“

Hann viðurkenndi að þetta væri nokkuð langt gengið og geti falið í sér brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. „En yfirvöld þurfa að takast á við þann raunveruleika sem blasir við á hverjum tíma, og þetta blasir við. Annaðhvort verður þessi heimild fyrir lögreglu eða þessi mál verða opinberuð í fjölmiðlum en ekki til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.“

Stefán sagði verulega ógn felast í brotamönnum á netinu. „Þessir níðingar hafa á undanförnum áratugum verið að koma sér fyrir á stöðum þar sem þeir vinna sér trúnað og traust barna og sá tími er mjög langur og mengið sem þeir fást við ekki stórt. Með tilkomu netsins er mengið orðið mun stærra og miklu fleiri börn sem þeir ná til. Og tíminn til að vinna þau á sitt band er einnig miklu styttri.“

Hann sagði hlutverk lögreglu að vera þar sem fólkið er og telur að lögregla eigi að ganga lengra á þessu sviði. Hann tók þó fram að það sé auðvelt fyrir hann að tala um þetta, því það hafi enginn samúð með barnaníðingum, en hans er þó ekki ákvörðunin. „En eigum við að setja þetta í hendur lögreglu með eftirliti eða hafa þetta í villta vestrinu, á borði fjölmiðla eins og verið hefur?“

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert