„Allt sem fer inn á sakaskrá er þar að eilífu, það týnist ekkert,“ sagði Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Hún svaraði þar spurningu nefndarmanna um hvort kynferðisbrot ættu ekki að vera undanþegin fyrningarreglum og ávallt á sakaskrá.
Sigríður benti á algengan misskilning sem snýr að sakaskrá og sakavottorði. Í því sambandi vísaði hún í reglur um sakaskrá sem eru aðgengilegar á vef ríkissaksóknara. Þar kemur fram að sakavottorð séu gefin út handa þeim sem þess óskar, þ.e. um hann sjálfan. Það eru þau vottorð sem vinnuveitendur biðja oft um. Í þeim eru þó fangelsisdómar ekki tilgreindir ef liðin eru 5 ár frá dómsuppkvaðningu eða frá því dómþoli var látinn laus hafi hann afplánað refsingu.
Þetta þýðir þó ekki málin fyrnist úr sakaskrá viðkomandi. „Einstaklingur fær einfaldlega ekki frekari upplýsingar,“ sagði Sigríður. „Málin fyrnast á tiltölulega stuttum tíma og er hugmyndin sú að menn fái annað tækifæri.
Hún skýrði það einnig svo að ef einstaklingur fengi ítarlegri upplýsingar myndu vinnuveitendur fara fram á þær, og þar með væri hugmyndin um annað tækifæri úr sögunni. Hins vegar er ákvæði í reglunum um að ríkissaksóknari geti veitt einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum einkaaðilum ákveðnar upplýsingar úr sakaskrá, enda sé það gert til þess að mögulegt verði að gæta lögvarinna hagsmuna sem greinilega séu ríkari en þeir hagsmunir sem felast í að halda upplýsingunum leyndum.
„Stofnanir sem eru að ráða fólk í vinnu með börnum, t.d. ráða fólk inn í skóla og leikskóla, geta sótt um frekari upplýsingar um viðkomandi og þær eru tímalausar. [...] Þetta er alveg skýrt og á hverjum degi afgreiðum við svona beiðnir.“