„Hélt ég væri að kaupa mér hamingju“

Skurðlæknir sést hér fjarlægja rofin PIP púða úr brjósti konu.
Skurðlæknir sést hér fjarlægja rofin PIP púða úr brjósti konu. AFP

Ýmsar ástæður liggja baki þeirri ákvörðun kvenna að gangast undir brjóstastækkunaraðgerð en helstu áhrifaþættir virðast vera þrá eftir kvenleika, útlitstengdar áhyggjur og vanlíðan í tengslum við brjóst. Margar virðast ekki gera sér grein fyrir því að aðgerðin sé ekki varanleg lausn.

Þetta er meðal niðurstaðna meistararannsóknar Thelmu Bjarkar Guðbjörnsdóttur við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Í rannsókninni tók Thelma viðtöl við 10 konur sem gengust undir brjóstastækkunaraðgerð á Íslandi og fengu í brjóst sín hina falsaða brjóstapúða frá fyrirtækinu Poly Implant Prothése (PIP). Rannsóknin var unnin undir leiðsögn dr. Freydísar Jónu Freysteinsdóttur og ber heitið „Brjóstastækkanir í fegrunarskyni: Upplifun og viðhorf kvenna með falsaða brjóstapúða“.

„Krabbameinskonur“ eða „bimbós“

Thelma bendir á að aðsókn í fegrunaraðgerðir hefur aukist og eru brjóstastækkunaraðgerðir með vinsælustu fegrunaraðgerðum sem framkvæmdar eru. Áætlað er að um 5-10 milljónir kvenna um allan heim séu með brjóstapúða en athygli vekur að engar haldbærar tölur eru til um tíðni slíkra aðgerða hér á landi né um afdrif þeirra sem gangast undir slíka aðgerð. Talið er að um 600 konur hér á landi hafi fengið í sig hina gölluðu PIP púða.

Í viðtölunum kom fram að konurnar upplifa fordóma í samfélaginu fyrir brjóstastækkunum. „[...] Það eru svo miklir fordómar, þú veist, fólk veit svo lítið af því að það er bara alltaf þessi staðalímynd af konum sem fá sér sílikon og það er ekkert þar á milli...nema bara krabbameinskonur og svo einhverjar bimbós skilurðu,“ er haft eftir einni konunni í ritgerðinni.

Gerðu þetta fyrir sig sjálfar, ekki aðra

Tvær kvennanna sögðust aldrei hafa viljað að neinn vissi af því að þær hefðu gengist undir aðgerð og sagðist ein skammast sín fyrir það. Thelma segir að um ósköp venjulegar konur sé að ræða og í viðtölunum lýstu allar konurnar nema ein því að þær hafi látið stækka á sér brjóstin fyrir sjálfa sig, til að líða betur og fá aukið sjálfstraust. „[...] Ég fór í þetta eingöngu fyrir sjálfa mig. Ég klæðist ekki þannig að ég er að auglýsa þetta fyrir alla. Þú veist þetta var bara fyrir mig, til að mér líði betur með mig [...]“ sagði ein þeirra.

Ólíkar ástæður lágu að baki ákvörðun kvennanna um að fara í aðgerð, konurnar vildu ýmist stækka eða bæta brjóstin, laga þau eða endurheimta fyrri lögun og/eða stærð brjóst. Allar töluðu þær þó um hversu mikilvæg brjóst væru fyrir kvenímyndina. Þær hafi flestar ekki upplifað sig kvenlegar áður en þær ákváðu að gangast undir brjóstastækkunaraðgerð. Einkennandi var að konur sem gengust undir aðgerð eftir að hafa verið með börn á brjósti töldu sig hafa misst ákveðinn kvenleika vegna breytinga á brjóstum sínum.

„[...] Mér fannst ég bara sko bara ef ég myndi klippa af mér hárið þá myndi ég ekki líta út fyrir að vera kona. Þannig að að mér fannst svona að ég bara til að, til að vera álitin kona yrði ég að hafa allavega brjóst. Það væri svona lágmarkið sko. Sítt hár og brjóst,“ sagði ein kvennanna.

Þorði loksins að fara í sund

Í viðtölum við Thelmu lýstu flestar konurnar ánægju sinni með útkomu aðgerðarinnar í fyrstu, en fylgikvillar og vandamál með brjóstapúða drógu úr ánægju sumra. Flestar töldu brjóstastækkunaraðgerðina hafa uppfyllt væntingar þeirra og lýstu sumar því svo að þeim fannst þær vera orðnar heilar á ný eða að loksins hafi allt orðið eins og það átti að vera.

Ein sagðist þá loksins hafa treyst sér til að fara í sund og „bara til að lifa“. Önnur sagði sjálfsálitið gjörbreytast.  „[...] Ég sé þetta sem bara eiginlega svona næstum því leiðréttingu fyrir mig. Bara verið að leiðrétta einhvern galla sem ég hafði og þarna baa svona verið að make things rights sko,“ sagði önnur.

Létu flestar fjarlægja púðana

Undir lok ársins 2011 fór af stað umræðan um falsaða PIP brjóstapúða. Að sögn Thelmu reyndist ástand brjóstapúða kvennanna 10 sem hún ræddi við vera á ýmsa vegu. Vitneskjan um gölluðu brjóstapúðana tók hins vegar á tilfinningalíf þeirra og leiddi til mikillar óvissu. Thelma bendir á að erfitt geti verið að standa frammi fyrir því að láta fjarlægja brjóstapúða sem viðmælendur töldu að hefðu veitt þeim mikið félagslegt öryggi á liðnum árum.

Meirihluti kvennanna ákvað að láta fjarlægja brjóstapúðana þegar í ljós kom að þær væru falsaðir, þrátt fyrir áhyggjur af því hvernig brjóst þeirra myndu líta út í kjölfarið. Þrjár kvennanna gátu ekki hugsað sér að vera án brjóstapúða og völdu að láta skipta þeim út fyrir nýja.

Ekki nægilega meðvitaðar um fylgikvilla

Rannsóknir hafa sýnt að algengt sé að konur þurfi að skipta brjóstapúðum út á 10-15 ára fresti. Kona sem fer fyrst í aðgerð um tvítugt gæti því þurft að skipta um púða 5 sinnum eða oftar um ævina. Thelma bendir á að þetta geti falið í sér bæði mikinn kostnað og áhættu sem eykst með hverri aðgerð. Fjöldi líkamlegra kvilla hafa verið tengdir brjóstapúðum og geta vandamál leitt til þess að nauðsyn þyki að fjarlægja púðana alfarið og jafnvel skafa burt harðan brjóstvef, sem getur valdið afmyndun á brjóstum.

Í rannsókn Thelmu kom þó fram áberandi lítil þekking kvennanna á hugsanlegum fylgikvillum brjóstastækkunar. Flestar voru þær á einu mál um að konur séu ekki nægilega fræddar um áhrif slíkra aðgerða til framtíðar. T.d. gerðu fæstar konurnar ráð fyrir því að þurfa að skipta um brjóstapúða síðar meir og höfðu þær ekki leitað til læknis í eftirlit, þrátt fyrir að hafa verið með búða í brjóstunum í um áratug. Thelma segir þetta vekja spurningar um hvort þörf sé á einhvers konar reglugerð um eftirfylgni.

Konur taki upplýstari ákvörðun

Thelma veltir þeirri spurning jafnframt upp hvort siðferðislega rétt sé að lýtalæknar séu þeir eini sem komi að ráðgjöf við konur áður en þær kjósa að gangast undir aðgerð, því raunin sé að í slíkum aðgerðum felist mikill hagnaður fyrir lýtalækninn sjálfan. Hún segir þó líka hugsanlegt að konur veiti ekki fræðslu af hálfu lýtalæknis næga athygli vegna þess hve reiðubúnar þær séu að gangast undir aðgerð.

„Hugsanlega gæti verið betra að einhver annar myndi sinna þessari ráðgjöf með læknunum. Svo væri líka mjög sniðugt að útbúa eitthvað fræðsluefni og efla samfélagslega umræðu um þetta þannig að almenn vitneskja sé meiri og konur taki upplýstari ákvörðun. Mér finnst líka að við mættum velta því fyrir okkur sjálf af hverju brjóst skipta svona miklu máli.“

Í ljósi þess hve algengar brjóstastækkunaraðgerðir eru veltir Thelma því fyrir sér í niðurstöðum rannsóknarinnar hvort ekki megi ætla að samfélagslegir staðlar um brjóst kvenna séu óraunhæfir og þörf sé á að breyta þeim, í stað þess að grípa til róttækra aðgerða og breyta líkamanum sjálfum. Í lok ritgerðarinnar vitnar Thelma í eina konuna sem lýsti hugmyndum sínum um ávinning brjóstastækkunaraðgerðarinnar með þessum orðum:

„Ég hélt bara að ég væri búin að kaupa mér hamingju og það myndi duga að eilífu.“

Meistararannsókn Thelmu Bjarkar Guðbjörnsdóttur má nálgast hér.

Thelma Björk Guðbjörnsdóttir.
Thelma Björk Guðbjörnsdóttir.
Engar haldbærar tölur eru til um tíðni brjóstastækkunaraðgerða á Ísland.
Engar haldbærar tölur eru til um tíðni brjóstastækkunaraðgerða á Ísland. mbl.is/Golli
Silikon brjóstapúðar.
Silikon brjóstapúðar.
Ýmsar ástæður eru fyrir því að konur kjósa að láta …
Ýmsar ástæður eru fyrir því að konur kjósa að láta stækka á sér brjóstin með aðgerð, en margar virðast finna fyrir fordómum í samfélaginu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert